Samtök selabænda: Fækkun í selastofni ekki af völdum bænda

Pétur Guðmundsson, Ófeigsfirði.

Aðalfundur samtaka selabænda var haldinn um síðustu helgi. Pétur Guðmundsson, Ófeigsfirði er formaður samtakanna. Hann segir um vilja umhverfisráðherra til þess að banna selaveiðar, að setja megi landselinn á válista eins og ráðherra nefnir, en bágt ástand stofnsins eigi sér aðrar ástæður en þær að bændur hafi gengið nærri stofninum. Í dag er lítið um beinar veiðar á sel, það eru einkum laxveiðibændur sem gera það. Þá vill það koma fyrir að selur flækist í grásleppunet.

Pétur Guðmundsson rifjar það upp að um 1980 hafi LÍÚ og fisksölusamtökin gengist fyrir herferð gegn selnum. Stofnuð var svokölluð hringormanefnd, sem hafði beinlínis það hlutverk að útrýma sel. Talið var að selur væri millihýsill fyrir hringorm sem var fiskvinnslunni dýr, þar sem hreinsa þarf orminn úr fiskflökum. Greiddi hringormanefnd fyrir hvern drepinn sel. Við þetta helmingaðist landselstofninn, segir Pétur „Hringormanefnd skeytti ekkert um það hvar var drepið. Síðan fækkaði landsel vegna grásleppuneta.“ Ástæðan var að bátarnir stækkuðu  og fóru norðar og utar til þess að leggja net og voru þá komnir að látrum selsins og hann flæktist í þeim og drapst. Pétur Guðmundsson telur vænlegra að líta til þess hverjir og hvers vegna eru í dag að drepa sel og miða aðgerðir við það. Engin ástæða sé til þess að banna bændum að veiða sel eins og gert hefur verið um langa hríð. Þær veiðar hafi ekki gengið nærri stofninum.

DEILA