Salat með risarækjum og súkkulaði gúmmelaði

Þórkatla Soffía Ólafsdóttir á uppskrift vikunnar.

Ég sendi hér uppskrift af salati sem er í senn hollt, gott og mjög fljótlegt. Ég vil þakka Iðu Marsibil fyrir þessa áskorun sem var dálítið krefjandi þar sem ég á mjög erfitt með að fylgja uppskriftum. Uppskriftin hér er þess vegna birt án hlutfalla. Setjið bara mest að því sem ykkur þykir best.

Ferskt salat með risarækjum

Marinering – risarækjur
hvítlaukur
lime
salt
svartur pipar
ólífu olía

Salat
spínat
klettasalat
vínber
avocadó
Mozzarella perlur
pistasíuhnetur
ferskur kóríander
rauður chilli
Rauð paprika

Setjið risarækjurnar í skál ásamt hvítlauk og safa og smá berki af lime, kryddið með salti og pipar og hellið yfir góðum slurk af ólífu olíu. Látið marinerast í hálftíma ef þið eigið hann til en annars bara á meðan salatið er útbúið.
Setjið spínatið, klettasalat og/eða það græna salat sem þið viljið í skál, skerið vínberin, avocadóið og paprikuna í bita og setjið saman við. Dreifið svo mozzarella perlum yfir. Steikið risarækjurnar á pönnu upp úr marineringunni þangað til þær eru eldaðar í gegn, raðið þeim ofan á salatið og hellið marineringunni yfir. Því næst eru pistasíuhneturnar settar út á pönnuna og ristaðar þar til þær hafa tekið góðan lit.

Rífið kóríander, skerið rauðan chilli og dreifið yfir salatið ásamt pistasíunum.

Hér er svo uppskrift af súkkulaði gúmmelaði sem gott er að eiga í frystinum. Byggt á uppskrift úr bókinni hennar Fanneyjar Sifjar, Sítrónur og súkkulaði – og ég hvet alla til að næla sér í eintak af þeirri bók.

4 dl haframjöl
200g súkkulaði
4dl döðlur
1dl þurrkuð goji ber
1/2dl möndlur
1/2dl sesamfræ

Stillið ofninn á 180°C. Dreifið haframjölinu á ofnskúffu klædda bökunarpappír og brúnið það í ofninum þar til það er orðið gullið. Skerið döðlur í bita og setjið í matvinnsluvél ásamt berjunum, möndlunum, sesamfræjunum og haframjölinu, maukið lítillega.
Bræðið súkkulaðið og blandið saman við, setjið blönduna í eldfast mót, klætt bökunarpappír, og setjið í frysti í ca tvær klst. Takið úr frysti og skerið í bita.

Ég skora á Halldór Erni Hallson, Patreksfirði að koma með næstu uppskrift.

Þórkatla Soffía Ólafsdóttir

DEILA