Reykhólahreppur hefur krafist vegar um Teigsskóg síðan 2005

Ný hreppsnefnd Reykhólahrepps.

Nýkjörin hreppsnefnd Reykhólahrepps liggur nú undir feldi og íhugar leiðaval fyrir nýjan veg um hreppinn. Sveitarstjórn breytti aðalskipulaginu fyrir áratug fyrir svonefnda B leið sem liggur um Teigsskóg. B leiðin varð síðar að Þ-H leið eftir smávægilegar breytingar og hefur sveitarstjórnin gert viðeigandi breytingar á aðalskipulaginu.

En afstaða Reykhólahrepps lá fyrir miklu fyrr. Í desember 2005 skrifar sveitarstjóri Reykhólahrepps, Einar Örn Thorlacius bréf til Skipulagsstofnunar sem lýsir umsögn sveitarstjórnar um mat á umhverfisáhrifum. Þar stendur:

Reykhólahreppur leggur áherslu á mikilvægi vegabóta í Gufudalssveit fyrir íbúa og aðra vegfarendur.  Vísað er til fyrirliggjandi skýrslu Rannsóknastofnunar háskólans á Akureyri “Samfélagsáhrif og arðsemi” sem fjallar um vegtengingar á Vestfjörðum.  Þar kemur vel fram mikilvægi styttinga í Gufudalssveit (svokölluð leið B) þar sem vegurinn verður á láglendi.

og ennfremur segir í bréfinu:

Sem fyrr mælir hreppsnefnd eindregið með leið B, enda eiga brattir fjallvegir að heyra sögunni til. Sú leið liggur í gegnum Teigsskóg.  Huga þarf að því að taka eins lítið rými undir veginn sjálfan og kostur er, þannig að sem minnst verði gengið á skóginn sjálfan. 

Í sama mánuði skila öll þrjú sveitarfélögin í Barðastrandasýslu sameiginlegri umsögn til Skipulagsstofnunar um matsskýrslu um umhverfisáhrif, það er Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur og Reyhólahreppur. Þar er minnt á skýrslu sem sveitarfélögin létu vinna fyrir sig:

Í júlí 2005 gaf Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri út skýrsluna Samanburður vegtenginga á Vestfjörðum, Vestfjarðavegur og Djúpvegur – samfélagsáhrif og arðsemi, sem stofnunin vann fyrir sveitarfélögin. Skýrsluna létu sveitarfélögin vinna m.a. vegna þess algera skorts á umfjöllun um samfélagslega þýðingu þeirra samgöngubóta sem hér um ræðir

og áfram segir í bréfinu:

Þá þótti skorta sýn á víðara samhengi samgöngubótanna en næði bara til þessara þriggja sveitarfélaga, sýn á þá framþróun sem verður með samgöngubótum annars staðar á Vestfjörðum og hvaða framtíðarhlutverki þessar tilteknu samgöngubætur gegna í því samhengi.  Sveitarfélögin leggja því þessa skýrslu RHA formlega fram til Skipulagsstofnunar með umsögn þessari

og loks:

Sveitarfélögin fagna því að Vegagerðin skuli fallast á kröfu þeirra, og ákveða að leið B verði fyrir valinu sem kostur Vegagerðarinnar í 2. áfanga framkvæmdarinnar á milli Þórisstaða og Krakár, enda hefur leiðin algjöra yfirburði yfir leiðir C og D, hvað varðar styttingu vegar og ferðatíma, og hvað vegtæknilega þætti og umferðaröryggi snertir.

DEILA