Nýjar hraðhleðslustöðvar Orkubús Vestfjarða

Hraðhleðslustöð OV á Hólmavík.

Orkubú Vestfjarða hefur tekið í notkun tvær nýjar hraðhleðslustöðvar (50 kW), annarsvegar á Hólmavík og hinsvegar á Patreksfirði, en þrjár stöðvar eru væntanlegar til uppsetningar fljótlega.

Stöðvarnar eru hluti af neti hraðhleðslustöðva, sem Orkubúið er að setja upp á Vestfjörðum, en fyrirhugað er að setja einnig niður tvær (50 kW) hraðhleðslustöðvar, annarsvegar í Bjarkalundi en hinsvegar í Flókalundi.  Þá verður sett niður 22 kW hleðslustöð í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp.  Með tilkomu stöðvanna verður hægt  að aka á rafbíl, á milli allra stærri þéttbýlisstaða á Vestfjörðum, en einnig að vinsælustu viðkomustöðum ferðamanna og inn á hringveginn að næstu hraðhleðslustöð.  Stöðvarnar hafa fjölbreytta (3) tengimöguleika bæði fyrir jafnstraum og riðstraum.

Orkubú Vestfjarða hefur gert samning við Ísorku varðandi aðgangsstýringu, vöktun og aðstoð við notendur og stöðvarnar verða ennfremur í smáforriti Ísorku þannig að hægt sé að fylgjast með stöðu þeirra á hverjum tíma.

DEILA