Ljósleiðari lagður um Barðaströnd

Frá Birkimel á Barðaströnd.

Sveitarfélagið Vesturbyggð stendur fyrir lagningu ljósleiðara á Barðaströnd. Málið var nýlega rætt á fundi bæjarráðs. Davíð Rúnar Gunnarsson slökkviliðsstjóri kemur að verkinu og hann sagði í samtali við bb.is að verkið væri komið vel á veg og stefnt væri að því að ljúka því næsta vor. Fjarskiptasjóður hefur veitt styrk til verksins. Þá greiðir hver notandi 250 þúsund króna tengigjald og sveitarfélagið leggur fé til verksins. Davíð kvaðst búast við að tengingar yrðu um 30 – 40. Það væru lögbýli og annars staðar þar sem væri föst búseta. Þá gætu sumarhús fengið tengingu.  Svæðið sem verkefnið nær til er frá Kleifaheiði  og að Flókalundi.  Davíð Rúnar Gunnarsson sagði að lagning ljósleiðara á Barðaströndinni væri tiltölulega hagkvæmt þar sem fjöldi notenda á hvern lagðan km af streng væri í hærra lagi sé miðað við dreifbýli.

Davíð Rúnar Gunnarsson, Patreksfirði.

 

DEILA