Langadalsá metin á 1,5 – 2 milljarða króna

Langadalsá.

Það koma óvæntar fullyrðingar fram í málflutningi Óttar Yngvasonar lögfræðings þeirra sem kærðu leyfi Arctic Sea Farm og Arnarlax um laxeldi í sjó og úrskurðarnefndin margfræga felldi úr gildi. Óttari gafst kostur á því að koma sjónarmiðum sínum og annarra kærenda á framfæri við sjávar- og landbúnaðarráðherra þegar umsókn fyrirtækjanna um bráðbirgðaleyfi var til meðferðar.

Óttar andmælti því að bráðabirgðaleyfi yrði veitt. Í andmælum hans er vísað til þess að 100 helstu laxveiðiár á skrá Landssambands veiðifélaga séu með samtals um 400 laxveiðistangir og heildarveiði 40–50 þúsund laxa. Verðmæti hverrar stangar sé að meðaltali a.m.k. kr. 500 milljónir.  Heildarverðmæti þessara 100 laxveiðiáa sé þá um 200 milljarðar kr. samkvæmt því sem fram kemur í rökstuðningi Óttars Yngvasonar.

Samkvæmt þessu er til dæmis verðmæti veiðiréttindanna í Hvannadalsá/Langadalsá í Ísafjarðardjúpi 1,5 – 2 milljarðar króna, en þar eru 3 -4 stangir leyfðar. Þetta er langt umfram fasteignamat hlunnindanna. Samanlagt fasteignamat fjögurra jarða sem eiga réttindi í þessum ám, Rauðumýri, Tungu, Brekku og Kirkjubóls  er aðeins um 15 milljónir króna. Það kann að vera að fleiri jarðir eigi réttindi í ánum en  ólíklegt að fasteignamatið á öllum réttindunum sé   mikið hærra. Það er 1% af fullyrðingu Óttars. Kannski að Strandabyggð eigi þarna ónýttan stofn til fasteignaskatts.

Meðalársveiði síðustu 40 ára  í ánum tveimur er um 300 laxar. Engin störf fylgja nýtingu þessara hlunninda.

DEILA