Kirkjuþing: styður breytingar á lögum um helgidagafrið

Kirkjuþing 2018. Mynd:Þjóðkirkjan.

Kirkjuþing tók fyrir drög að frumvarpi dómsmálaráðherra um breytingu á lögum um helgidagafrið í gær. Frumvarpið var samþykkt samhljóða þó með tillögum um tæknileg útfærsluatriði. Tuttugu og sjö mál voru tekin fyrir á 57. kirkjuþingi lauk að sinni í fyrradag.

Kirkjuþing lýsti almennum stuðningi við markmið frumvarpsins. Í frumvarpsdrögum ráðuneytisins er m.a. lagt til að II. kafli núgildandi laga um helgidagafrið verði felldur brott og ákvæðum hans komið fyrir í þjóðkirkjulögum. Við það gerir kirkjuþing athugasemdir. Bent er á að þjóðkirkjulögin fjalli um ytri málefni þjóðkirkjunnar en hins vegar séu ákvæði um helgidaga hluti af innri málefnum kirkjunnar og eigi því fremur heima í samþykktum um innri málefni en í þjóðkirkjulögum.

Varað er víð því að fara þá leið og segir í áliti löggjafarnefndar kirkjuþings:

„nái sú breyting fram að ganga sem lögð er til í frumvarpinu er raskað þeim hefðbundna skilningi sem ríkt hefur um aðgreiningu innri og ytri mála þjóðkirkjunnar og þar með dregið úr sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétti hennar. Slíkt orkar mjög tvímælis miðað við þá stefnu sem ríkt hefur og talið er að haldið skuli fast við í framtíðinni.“

Kirkjuþing hefur æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar innan lögmæltra marka. Þingið kemur árlega saman til fundar á haustdögum. Á þinginu sitja 29 fulltrúar, 12 vígðir og 17 leikmenn. Forseti kirkjuþings er kjörinn úr röðum leikmanna. Núverandi forseti er Drífa Hjartardóttir.

DEILA