Javier Fochesatto prófessor í gufuhvolfsfræði mætir í Vísindaport á morgun

Geislunarjafnvægi jarðarinnar er undir miklum áhrifum frá jaðarlagi lofthjúpsins (e. atmospheric boundary layer, ABL). Þessi hluti lofthjúpsins er mikilvægur fyrir samspil flæðis í loft við land og yfirborð sjávar og að stilla af flæði geislunar og ókyrrðar. Á veturna er jaðarlagið alla jafna stöðugt við heimsskautin þar sem engrar dægursveiflu gætir en þó eru tímabil þar sem jaðarlagið er í hlutlausu jafnvægi. Hitahvörf geta myndast, en það ræðst af stórskala hringrásinni. Þessi hitahvörf eru frábrugðin hitahvörfum við yfirborðið þar sem yfirborðshitinn skiptir öllu.

Í Vísindaporti vikunnar mun Dr. Javier Fochesatto kynna greiningu af svokölluðuð GPS-Radio Occultation (GPSRO) gögnum og bera þau saman við hefðbundar háloftaathugnanir með veðurblöðru. Skoðað verður tímabilið 1. október til 31. mars á árunum 2005—2015. GPSPRO gögnin sem skoðuð eru er frá 4°x4° boxi í kringum Fairbanks og Barrow í Alaska.

Javier Fochesatto er prófessor í gufuhvolfsfræði (e. atmospheric sciences) við háskólann í Alaska í Bandaríkjunum. Hann ritstýrir einnig tímaritinu Journal of Atmospheric and Oceanic Technology sem American Meteorological Society gefur út. Fochesatto kennir nú námskeiðið Methods of Global Climate Change sem er hluti af námsleiðinni Climate Change and Global Sustainability sem er á meistarastigi. Þessi námsleið er ný af nálinni og er hún á vegum School for International Training (SIT) samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða, en þessar tvær stofnanir eru búnar að eiga í farsælu samstarfi í rúman áratug.

Vísindaportið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13 og er opið öllum. Að þessu sinni verður erindið flutt á ensku. Samantekt á ensku má finna á vef Háskólasetursins.

Sæbjörg

sfg@bb.is

DEILA