Höfnuðu nýjum samstarfssamningi og endurnýja eldri

Kómedíuleikhúsið hefur unnið sér fastan sess á Vestfjörðum. Mynd: Kómedíuleikhúsið.

Atvinnu- og menningarmálanefnd Ísafjarðarbæjar hittist í gær og fór yfir þau mál sem lágu fyrir. Þar á meðal var lagður fram tölvupóstur Eyþórs Jóvinssonar vegna fjárhags Gamanmyndahátíðar Flateyrar. Óskað er eftir langtímasamningi um stuðning við hátíðina. Bæjarráð tók erindið fyrir á 1038. fundi sínum 12. nóvember sl. og vísaði því til vinnslu í atvinnu- og menningarmálanefnd. Enn fremur var bréfritara bent á að leita til Uppbyggingasjóðs Vestfjarða.

Atvinnu- og menningarmálanefnd hafnar beiðni um samning við Ísafjarðarbæ vegna styrkveitinga til Gamanmyndahátíðar Flateyrar. Slíkir samningar eru ætlaðir til að efla hátíðir sem þegar hafa fest sig í sessi í sveitarfélaginu og sýnt fram á mikilvægi sitt í samfélagslegu og menningarlegu tilliti. Atvinnu- og menningarmálanefnd óskar aðstandendum hátíðarinnar velfarnaðar og hvetur áfram til góðra verka.

Þá var rætt um samstarfssamning við Kómedíuleikhúsið og atvinnu- og menningarmálanefnd fól starfsmanni nefndarinnar að uppfæra samstarfssamninginn í samræmi við umræður á fundinum og hafa samband við forsvarsmann Kómedíuleikhússins.

Á fundinum voru einnig kynnt drög að frumvarpi til laga um sviðslistir sem lögð eru fram af mennta- og menningarmálaráðuneytinu og eru til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda. Umsagnarfrestur er til 27. nóvember n.k.

Atvinnu- og menningarmálanefnd ítrekar það sem fram kemur í greinargerð með frumvarpi að lögum um sviðslistir að aðgengi allra landsmanna að menningu og listum sé mikilvægt og það að geta tekið þátt í slíku starfi. Jafnframt eru gerðar athugasemdir við að hvergi í frumvarpi að lögum er skýrt kveðið á um hlut sviðslista og hlutverk sviðlistaráðs gagnvart landsbyggðinni og hvernig landsmenn allir eiga að njóta lista og menninga.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA