Gefa út bók um hvítabirni á Íslandi

Út er komin bókin Hvítabirnir á Íslandi eftir Rósu Rut Þórisdóttur mannfræðing. Bókin tekur fyrir landgöngur hvítabjarna frá landnámi til okkar tíma. Hún byggir á áratuga heimildasöfnun föður hennar, Þóris Haraldssonar líffræðikennara við Menntaskólann á Akureyri, sem lést í byrjun árs 2014. Auk sagna af eignlegum landgöngum er að finna í bókinni, þjóðsögur, munnmælasögur, kvæði og annan fróðleik sem tengist hvítabjörnum á Íslandi í gegnum tíðina.

Bókin varpar ljósi á hversu tíðar hvítabjarnarkomur hafa í raun verið og frásagnirnar lýsa hversu skæðar skepnur um er að ræða. Til að mynda er sagt að bærinn að Dröngum í Árneshreppi hafi tvisvar farið í eyði vegna bjarndýra og bærinn Þeistareykir norður af Mývatnssveit þrisvar sinnum.

Hvítabirnir hafa þá sérstöðu á Íslandi að vera einu mannskæðu rándýrin sem hingað geta komist af sjálfsdáðum. Vegna þessa hafa þeir valdið mönnum hugarangri og andvökunóttum öld eftir öld. Blessunarlega fer fáum sögum af því að dýrin hafi skaðað fólk hér á landi þó að stundum hafi litlu mátt muna. Slíkar sögur eru þó sannarlega til og hafa varðveist frá kynslóð til kynslóðar. Vitað er um a.m.k. 30 Íslendinga sem birnir hafa orðið að aldurtila, beint eða óbeint. Sá seinasti var Hjálmar bóndi í Höfn í Hornavík sem barðist við hvítabjörn með hákarlalensu að vopni í kringum 1850. Í bardaganum tókst bjarndýrinu að bíta illa í handlegginn á Hjálmari. Sárið var svo mikið að hann lést af því nokkru síðar.

Vestfirðingar hafa í gengnum tíðina reglulega hitt fyrir bjarndýr. Einnig eru ríkur þáttur í vestfirskum þjóðsögum þar sem jafnvel blindir menn veigra sig ekki við því að drepa þau til að verja sig og sína. Sögur fara ennfremur af ótilgreindum kynjadýrum sem menn urðu varir við í þokunni og urðu menn beggja vegna á útnesjum í Breiðafirði hafi varir við þess konar skepnur áður fyrr. Hér eru tilteknar tvær frásagnir:

Það var eitt sinn haustið 1844 að tveir drengir, allvel greindir, voru að ganga að kindum um úteyjar þær sem liggja undir Hvallátur, sem er byggð ey á Breiðafirði, litlu fyrir hálfrökkur. Þegar þeir komu upp á ey þá er Ystaey heitir (eyja þessi er lítil, láglend að sunnanverðu en með klettum að norðan og veitir henni allri til suðurs) sáu þeir dýr eitt hér um bil rúma 20 faðma norður frá sér á eyjunni, viðlíka stórt og fullorðinn sauður. Virtist þeim þá sem dýr þetta stæði þegar upp því það hækkaði mjög, þó fengu þeir enga fætur séð á því eða lofta undir kviðinn, síðan tók það undir sig stökk mikið norður af klettunum þar sem þeir eru fullar 10 álnir á hæð, og út í sjóinn þar norður af. Dýr þetta var hvítleitt á lit, aflangt og snubbótt fyrir báða enda.

Dagblöðin tóku vel við sér í júnímánuði 1963 þegar hvítabjörn komst af eigin rammleik að Hornvík. Fjórir Ísfirðingar urðu varir við dýr sem þeir héldu fyrst að væri hrútur en fljótlega varð þeim ljóst að þarna var bjarndýr. Það voru þeir Ole Olsen, Stígur Stígsson og bræðurnir Trausti og Kjartan Sigmundssynir sem felldu dýrið sem reyndist vera birna um 500 kg að þyngd og um 2,40 m á lengd. Ísfirðingarnir fláðu björninn strax, grófu kjötið í fönn nema hvað þeir steiktu einn kjötbita, þótti hann bragð góður og líkjast nautakjöti. Einnig átu þeir hjartað. Ýmsir á Ísafirði brögðuðu kjötið og þótti misgott.

Það er bókaútgáfan Hólar sem gefur út Hvítabirni á Íslandi.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA