Framsókn styður uppbyggingu fiskeldis

Gísli Jón Kristjánsson.

Á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins sem haldinn var um helgina var samþykkt ályktun um áframhaldandi uppbyggingu fiskeldis.

Ályktunin er svohljóðandi:

„Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein og mun skapa okkur miklar útflutningstekjur. Samhliða þeirri uppbyggingu þarf að tryggja verndun villta laxstofnsins við Ísland, þess vegna er fiskeldi á afmörkuðum svæðum.

Mikil verðmæti eru fólgin í því að byggja upp fiskeldið og Framsóknarflokkurinn sem byggðastefnuflokkur mun styðja við þá uppbyggingu sem snýr að fiskeldi því að þau svæði sem hafa verið í uppbyggingu í greininni þurfa að hafa möguleika á að blómstra. Áfram þarf að vinna að mótvægisaðgerðum sem tryggja verndun alls lífríkis og lágmarka hættu á erfðablöndun við íslenska laxastofninn.

Framsóknarflokkurinn er umhverfissinnaður flokkur. Því er mikilvægt  að finna jafnvægi á milli þessara hagsmuna, þeirra sem vilja vernda og nýta. Eitt útilokar ekki annað og allir hagsmunaaðilar eiga að geta blómstrað á Íslandi. Framsóknarflokkurinn mun hér eftir sem hingað til standa með þeim byggðum sem eiga undir högg að sækja.“

Gísli Jón Kristjánsson, Ísafirði vann að ályktuninni ásamt Ásmundi Daða Einarssyni og Höllu Signý Kristjánsdóttur. Gísli Jón sagði í samtali við bb.is að ályktunin væri afdráttarlaus. Framsóknarflokkurinn hefði stigið skrefið til stuðnings fiskeldinu. Formaður flokksins styddi þessa afstöðu. Miðstjórnin samþykkti ályktunina samhljóða.

DEILA