Byggðakvóti: 10 þúsund tonn til Vestfjarða á 6 árum

Frá Flateyri. Mynd:Kristinn H. Gunnarsson.

Til Vestfjarða hefur verið síðustu 6 fiskveiðiár úthlutað tæplega 10 þúsund tonnum af byggðakvóta. langmest er úthlutað af þorskkvóta. Verðmæti kvótans er um 1,5 milljarður króna miðað við verð á leigukvóta um þessar mundir. Sé hins vegar miðað við leiguverð á hverju fiskveiðiári fyrir sig er verðmætið nokkuð hærra þar sem kvótaleigan hefur lækkað á síðustu árum og fylgir nokkuð gengisskráningu krónunnar. Hærra gengi krónunnar lækkar leiguverðið og öfugt.

Flateyri hefur fengið langmest á þessum tíma eða um 1.870 tonn. Næst er Súðavík sem hefur fengið 1.120 tonn. Bæði þingeyri og Tálknafjörður hafa fengið meira en 1.000 tonn á þessum 6 árum. Sérstakur byggðakvóti sem Byggðastofnun úthlutar er ekki talinn með í þessu yfirliti.

DEILA