ASÍ þing : stefnan mörkuð

Frá 43. ASÍ þing. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Á nýafstöðnu þingi ASÍ var mörkuð stefna í þeim fimm málaflokkum sem voru sérstaklega til umfjöllunar á þinginu og í aðdraganda þess. Í maí og september voru farnar tvær hringferðir um landið og haldnir 18 fundir á 11 stöðum þar sem vel á sjötta hundrað manns í grasrót verkalýðshreyfingarinnar fjölluðu um málaflokkana fimm. Umfjöllun um þá var svo framhaldið á 43. þingi ASÍ þar sem 300 þingfulltrúar komu að vinnunni. Málaflokkarnir sem um ræðir eru eftirfarandi:

Tekjuskipting og jöfnuður
Húsnæðismál
Heilbrigðismál og velferð
Tækniþróun og skipulag vinnunnar
Jafnvægi atvinnuþátttöku og einkalífs

Í ályktun um tekjuskiptingu og jöfnuð segir m.a.:

Réttlát tekjuskipting

43. þing ASÍ krefst samfélags réttlátrar tekjuskiptingar, jafnra tækifæra og jafnaðar. Samfélags þar sem launafólk nýtur mannsæmandi kjara og réttinda á vinnumarkaði og allur almenningur býr við húsnæðisöryggi og traust velferðarkerfi sem fjármagnað er með réttlátu skattkerfi.

Vaxandi misskipting auðs og tekna

Misskipting auðs og tekna fer vaxandi hér á landi. Þessi þróun er ekki ásættanleg. Ójöfnuður dregur úr félagslegum hreyfanleika, efnahagslegum og pólitískum stöðugleika og hefur neikvæð áhrif á hagvöxt, efnahag og lífskjör til framtíðar. Það er viðvarandi áskorun verkalýðshreyfingarinnar að stuðla að jöfnu samfélagi, jöfnum tækifærum og sanngjarnri tekjuskiptingu. Allir eiga að búa við atvinnu- og afkomuöryggi.

Endurskoða skattkerfið og fjármögnun samfélagslegra verkefna

Skattbyrði launafólks hefur aukist á undanförnum áratugum. Sú þróun hefur lagst þyngst á hina tekjulægstu. Persónuafsláttur hefur ekki fylgt launaþróun og barna- og húsnæðisbætur hafa verið skertar. Í ríkisfjármálaáætlun birtist sú stefna stjórnvalda að veikja þessi kerfi enn frekar á sama tíma og hinir tekjuhæstu hafa notið góðs af fækkun þrepa í skattkerfinu, lágum sköttum á fjármagnstekjur og afnámi auðlegðarskatts. Tæknibreytingar, aukin sjálfvirkni, fjármálavæðing atvinnulífsins og nýting sameiginlegra auðlinda kalla á endurskoðun á skattkerfinu og fjármögnun samfélagslegra verkefna.

Millifyrirsagnir eru bb.is.

DEILA