Ásgeir Jónsson, hagfræðingur: Fækkun á sauðfé framundan

Ásgeir Jónsson, hagfræðingur.

Í síðasta mánuði stóð Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir fundi með fulltrúum ólíkra hópa og sjónarmiða undir yfirskriftinni: Hvernig aukum við verðmætasköpun í íslenskum landbúnað?

Einn þeirra sem þar flutti erindi var Ásgeir Jónsson, hagfræðingur.

Ásgeir sagði að vandamálið sem við blasti í landbúnaði væri offramleiðsla á kindakjöti og það þarfnaðist skjótrar úrlausnar. Greining hans var þessi:

  • Nú er um þriðjungur (34%) af framleiðslunni umfram innanlandsþörf eða rúmlega 3,6 þúsund tonn.
  • Á sama tíma hefur verð á sauðfjárafurðum lækkað verulega og framlegð greinarinnar hefur hrunið.

Með einhverjum hætti verður að færa framboð að eftirspurn í sauðfjárrækt.

Varpaði Ásgeir Jónsson fram þeirri spurningu hvort komið væri að fækkun sauðfjár af svipaðri stærðargráðu og var 1980 þegar fækkað var um helming.

Ásgeir taldi hlutverk landbúnaðar á þessari öld vera ferns konar:

  1. Aflvaki fjölbreytni. Sami fjöldi starfa væri í landbúnaði og í fiskveiðum og fjöldinn hafi haldist stöðugur síðustu ár þrátt fyrir fækkun í hefðbundnum búgreinum. Taldi Ásgeir unnt að skapa góð störf fyrir ungt fólk á næstu árum.
  2. Aflvaki byggðastefnu. Landbúnaður er og verður helsta atvinnugreinin á dreifbýlum svæðum. Góð byggðastefna byggir á því að skapa góð lífskjör landið um kring fyrir þá sem vilja fjölbreytta búsetu- og atvinnukosti.
  3. Aflvaki ferðaþjónustu. Í stað þess að reyna að flytja út landbúnaðarafurðir – þá munum við til framtíðar flytja við fólkið inn í landið til þess að neyta afurða hér innanlands.
  4. Aflvaki menningar og samfélags. Íslenskur landbúnaður – hvort sem um er að ræða afurðirnar, hefðirnar, fólkið eða landið – er eitt af því sem er einstakt og eftirsóknarvert við Ísland.

Landbúnaðarstefna framtíðarinnar, að mati Ásgeirs Jónssonar byggir þessum atriðum:

1.Nauðsynlegt að hugsa um byggðastefnu sem lífskjarastefnu – með það að markmiði að tryggja jöfnuð tekna í landinu öllu.

1.Það felur í sér upptöku annars konar styrkjafyrirkomulags sem tryggir betri tekjudreifingu en gamla kvótakerfið.

2.Nauðsynlegt að setja bændur í fyrsta sæti þannig að markmiðið sé að skapa virðisauka á býlinu sjálfu.

3.Nauðsynlegt að afmarka ríkisstuðninginn við þær búgreinar sem raunverulega hafa byggðagildi – ekki verksmiðjur með „hvítt“ kjöt.

4.Nauðsynlegt að móta landbúnarstefnuna sem nýsköpunarstefnu – að setja styrki í nýjungar og létta reglugerðarbyrðina á greininni.

5.Nauðsynlegt að byggja upp landbúnarstefnu þar sem stuðningur kemur fram með öðrum hætti en viðskiptahömlum.

6.Nauðsynlegt að miða styrki til landbúnaðar við innanlandsneyslu.

DEILA