Arctic Sea Farm og Fjarðalax fá rekstrarleyfi til bráðabirgða

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Fiskeldisfyrirtækin Arctic Sea Farm hf. og Fjarðalax hf. hafa fengið rekstrarleyfi til bráðabirgða til 10 mánaða fyrir laxeldi í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði, samkvæmt ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þetta var tilkynnt í gær.

Við ákvörðun leyfis til Arctic Sea Farm og Fjarðalax var óskað eftir umsögnum frá Matvælastofnun, Byggðastofnun,  Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun. Jafnframt var andmælendum veitt tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

Rekstrarleyfin sem veitt eru til bráðabirgða eru bundin ákveðnum skilyrðum, m.a. skal Matvælastofnun hafa eftirlit með fjölda útsettra laxaseiða, leyfishafi ber ábyrgð á vöktun og rannsóknum til að meta vistfræðileg áhrif á nánasta umhverfi og leyfishafa ber skylda til að nota erfðavísa þannig að unnt sé að rekja uppruna eldislaxa til ákveðinna sjókvíaeldisstöðva. Auk þess ber fyrirtækjunum að hefjast þegar handa við að bæta úr þeim göllum sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála taldi vera á málsmeðferð  við útgáfu rekstrarleyfisins sem ógilt var og/eða láta reyna á lögmæti ógildingu þeirra fyrir dómsstólum.

Ætla með málið fyrir dómstóla

Fram kemur í umsókn Arctic Fish um bráðabirgðaleyfið að unnið sé að útbúa réttarstefnur. Höfðað verður mál á hendur þeim sem kærðu leyfið til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál. Málstíminn er óviss en bent á að í svipuðu máli sem dæmt var í í fyrra tekið hafi 13 mánuði að reka  málið fyrir báðum dómsstigum.  Samhliða því mun svo fyrirtækið bæta úr þeim annmörkum á umhverfismatinu sem úrskurðarnefndin fann að. Telur fyrirtækið að það ferli gæti tekið 7 mánuði ef allt gengur fumlaust.

Færir Arctic Fish þau rök fyrir umsókn sinni um bráðabirgðaleyfi að í stjórnarskrá sé öllum tryggður sá réttur að geta fengið fyrir óháðum dómstólum úrlausn um réttindi sín og skyldur innan hæfilegs tíma. Forsenda þess að slíkt sé hægt er að fyrirtækið fái bráðabirgðarleyfi. Í öðru lagi segist Arctic Fish hafa hagað starfsemi fyrirtækisins í góðri trú um gildi leyfisins eftir að leyfin voru veitt þar sem þrjár opinberar stofnanir höfðu komið að leyfisveitingunni og voru allar henni sammála. Í þriðja lagi segir fyrirtækið að án bráðabirgðaleyfis verði það fyrir miklu fjárhagslegu tjóni sem aftur valdi miklum skaða í byggðarlögunum þar sem starfsemin fer fram.

Ráðuneytið fellst á rök Arctic Fish og telur umsóknina falla að ákvæði laganna og telur að koma megi í veg fyrir óþarfa og óafturkræfa sóun verðmæta sem fylgir rekstrarstöðvun. Það er svo ráðherrann Kristján Þór Júlíusson sem skrifar undir leyfið.

DEILA