Arctic Sea Farm og Fjarðalax fá rekstrarleyfi til bráðabirgða

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Fiskeldisfyrirtækin Arctic Sea Farm hf. og Fjarðalax hf. hafa fengið rekstrarleyfi til bráðabirgða til 10 mánaða fyrir laxeldi í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði, samkvæmt ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Við ákvörðun leyfis til Arctic Sea Farm og Fjarðalax var óskað eftir umsögnum frá Matvælastofnun, Byggðastofnun,  Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun. Jafnframt var andmælendum, þ.e. þeim sem kærðu til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál,  veitt tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

Rekstrarleyfin, sem veitt eru til bráðabirgða eru bundin ákveðnum skilyrðum, m.a. skal Matvælastofnun hafa eftirlit með fjölda útsettra laxaseiða, leyfishafi ber ábyrgð á vöktun og rannsóknum til að meta vistfræðileg áhrif á nánasta umhverfi og leyfishafa ber skylda til að nota erfðavísa þannig að unnt sé að rekja uppruna eldislaxa til ákveðinna sjókvíaeldisstöðva. Auk þess ber fyrirtækjunum að hefjast þegar handa við að bæta úr þeim göllum sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála taldi vera á málsmeðferð  við útgáfu rekstrarleyfisins sem ógilt var og/eða láta reyna á lögmæti ógildingu þeirra fyrir dómsstólum.

Málið fer fyrir dómstóla

Það kemur fram í umsókn Arctic Sea Farm um bráðabirgaðleyfi að fyrirtækið mun leggja málið fyrir dómstóla og að bráðabirgðaleyfinu er ætlað að brúa bilið þar til niðurstaða liggur fyrir. Unnið er að því að útbúa réttarstefnur vegna úrskurðar úrskurðarnefndarinnar og verður kærendum stefnt fyrir dóm. Óskað verður eftir flýtimeðferð. Ekki er hægt með vissu að segja hve langan tíma málið mun taka en nefnt er að svipað mál, sem dómur féll í í fyrra, hafi tekið 13 mánuði fyrir báðum dómsstigum.

Samhliða verður bætt úr meintum annmörkum á umhverfismatinu og gerir gróf áætlun ráð fyrir 7 mánuðum ef allt gengur snurðulaust fyrir sig.

Rök fyrirtækisins eru einkum af þrennum toga. Í fyrsta lagi að stjórnarskráin mælir fyrir um að allir eigi rétt á því að fá úrlausn á réttindum og skyldum sínum fyrir óháðum og óhutdrægum dómstól. Til þess að svo megi verða þarf að veita svigrúm til málarekstursins að öðrum kosti eru þessi ákvæði stjórnarskrárinnar ekki raunhæf. Í öðru lagi bendir fyrirtækið á að það hafi verið í góðri trú um að það hefði gilt leyfi í höndunum þar sem þrjár ríkisstofnanir hefðu verið því meðmæltar. Loks er svo bent á þá fjárhagslegu hagsmuni fyrirtækisins og byggðalegu hagsmuni sem eru undir í málinu. Fáist ekki bráðabirgðaleyfi komi til alvarlegra samdráttaraðgerða og fjárhagslegs tjóns.

Skipulagsstofnun: ekki aðrir raunhæfir kostir

Matvælastofnun, sem gefur út rekstrarleyfi var meðmælt því að veita bráðabirgðaleyfi. Skipulagsstofnun segir í sinni umsögn að nóg eigi að vera að taka saman greinargerð um valkosti til þess að koma til móts við úrskurð úrskurðarnefndarinnar og að ekki þurfi að koma til málsmeðferðar samkvæmt lögum um umhverfismat. Forsenda þessarar afstöðu Skipulagsstofnunar er að fyrir liggi að í reynd sé ekki um að ræða aðra raunhæfa valkosti því þurfi aðeins skýrslugerð sem útskýrir þróun þeirrar framkvæmdatillögu sem varð ofaná og fjalli svo líka um þá kosti sem nefndir eru í úrskurði úrskurðarnefndarinnar. Telur því Skipulagsstofnun ekki tilefni til þess að gera matsáætlun og að nægjanlegt sé að leggja fram frummatsskýrslu sem beinist eingöngu að þeim þáttum sem tilgreindir eru í úrskurðinum. Að öðru leyti standi matsskýrslan frá 2016 og álit Skipulagsstofnunar á henni.

Það er ráðherrann sem skrifar undir leyfisbréfið og úrskurðinn sem því fylgir.

DEILA