Tvö stutt erindi í Vísindaporti á morgun

Guy Yeomans og Karl Friðriksson. Mynd: UW.is

Að þessu sinni verða í Vísindaporti tveir stuttir og áhugaverðir fyrirlestrar. Gestir okkar eru Karl Friðriksson, starfsmaður Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Guy Yeomans, framtíðarfræðingur frá Bretlandi. Þessa viku kenna Karl og Guy námskeiðið Arctic Futures sem er eitt af mörgum valnámskeiðum í námsleiðinni Haf- og strandsvæðastjórnun.

Karl flytur sitt erindi sem hann nefnir „Hvað er framtíðarfræði? Er framtíðin óþrjótandi hráefni eða ógn?“ á íslensku og Guy flytur sitt „What are the benefits of the futures approach?“ á ensku.

Karl er í forsvari fyrir sviði á Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem heitir frumkvöðlar og fyrirtæki. Hann er einnig stjórnarformaður Framtíðarseturs Íslands. Karl hefur reynslu af markaðsmálum hérlendis sem erlendis og hefur unnið að nýsköpun meðal íslenskra fyrirtækja og stofnana.

Guy Yeomans hefur síðan 2009 unnið á ráðgjafasviði framtíðarfræða, eftir að hafa eytt áratug á hinu vaxandi sviði Internetvæðingarinnar. Guy vinnur á alþjóðavísu og eru meðal hans viðskiptavina aðilar í viðskiptaheiminum, hjá hinu opinbera og hjá háskólum. Hann leiðir málstofur og hefur sérstakan áhuga á málefnum Norðurslóða.

Vísindaportin eru opin öllum og fara fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13.

DEILA