Tónlistarfélag Ísafjarðar 70 ára

Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða.

Lúðrar verða á ferð og flugi í tónlistarbænum Ísafirði n.k. laugardag í tilefni stórafmælis Tónlistarskólans. Skólalúðrasveitin mun fara um bæinn og blása inn veisluna. Afmælishátíð er í húsi Tónlistarskólans, í gamla virðulega húsmæðraskólahúsinu við Austurveg og munu jafnvel þeir gestir sem ekki eru staðkunnugir varla missa af viðburðinum þar sem von er á lúðrakalli og lúðraþyt frá svölum hússins.

Klukkan tólf á laugardegi, 13.10.2018 verður svo hátíðin sett í Hömrum, hinum glæsilega sal Tónlistarfélagsins við Tónlistarskólann. Gestum verður boðið upp á tónlistardagskrá þar sem m.a. verður frumflutt lag Tónlistarskóla Ísafjarðar eftir Halldór Smárason tónskáld við texta Steinþórs B. Kristjánssonar, báðir fv. nemar Tónlistarskólans. Fram koma nemendur og kennarar Tónlistarskólans, Kvennakór Ísafjarðar og Sunnukórinn. Opnuð verður sögusýning sem tengist starfi Tónlistarskóla Ísafjarðar og Tónlistarfélags Ísafjarðar síðustu áratugi.

Svo taka við, upp úr kl. 15:00, stofutónleikar í orðsins fyllstu merkingu, tónleikar heima í stofum Ísfirðinga og fara íbúar og gestir bæjarins í tilefni stórafmælisins í hálfgerðan ratleik um þröngar götur og húsasund á Eyrinni á Ísafirði til að fara stofu úr stofu og fá að launum ný og ný tónverk spiluð í heimahúsum. Fram koma nemendur Tónlistarskóla Ísafjarðar, heimilismenn og aðrir góðir gestir.

Afmælinu verður hins vegar fagnað í heilt ár með vandaðri dagskrá mánuð eftir mánuð þar sem hver viðburðurinn rekur hinn.

 

Það var þann 10.10.1948 að ákveðið var á fundi Tónlistarfélags Ísafjarðar að stofnaður skyldi Tónlistarskóli. En Ragnar H Ragnar, fyrsti skólastjóri og tónlistarfrömuður á Ísafirði, lagði ávallt áherslu á að fyrsti skóladagurinn, 11.október, væri stóri dagurinn og svo skyldi það vera, enda Tónlistarfélag Ísafjarðar og Tónlistarskóli þess með eindæmum rík að hefðum.

 

Afmælisdagur skólans er því í raun fimmtudagurinn 11. október 2018. Svo vill til að þennan sama dag verður Jón Ásgeirsson tónskáld 90 ára og munu nemendur og kennarar syngja Jóni Ásgeirssyni afmælissöng hans. Eftir það eiga nemendur og kennarar glaðan dag í skólanum og ef tæknin klikkar ekki, getur aldrað tónskáld fyrir sunnan skæpað læf við yngstu kynslóð upprennandi tónlistarmanna á Ísafirði, enda áberandi margir tónlistarmenn sprottnir úr frjóum jarðvegi Tónlistarskóla Ísafjarðar.

Tónlistarskólinn er einn elsti starfandi tónlistarskóli á Íslandi og Tónlistarfélagið sjálft er elsta starfandi tónlistarfélag landsins. Tónlistarskólinn, sem nú verður sjötugur, er líka eini Tónlistarskólinn á landinu, sem enn er rekinn af Tónlistarfélagi, þó Ísafjarðarbær hafi vissulega á síðustu árum stutt dyggilega við skólann. Það sem er þó öllu merkilegra við þennan skóla er að hann hefur haft, frá stofnun á árinu 1948 þar til fyrir stuttu, tvo skólastjóra, feðginin Ragnar H Ragnar og Sigríði Ragnarsdóttur.

 

Á sjötíu ára afmæli skólans stendur skólinn á gömlum merg, en líka á krossgötum. Sigríður Ragnarsdóttir, sem hefur verið skólastjóri eftir föður sinn frá 1984, lét af störfum nú nýlega, eftir meira en þrjátíu ára starf í þágu menningar og tónlistar á Ísafirði. Það verður seint þakkað til fulls, og  viðeigandi að heiðra Sigríði og einginmann hennar, Jónas Tómasson tónskáld, í tilefni sjötugsafmælis á vængjum söngsins. Abba-lagið Thank you for the Music var þýtt af Ólínu Þorvarðardóttur í tilefni sextugs-afmælis skólans og hefur „Á vængjum söngsins“ lifað með Ísfirðingum síðan.

 

Látlaus ég virðist, ég verð sjaldan æst eða reið.
Ef ég segi sögu – þá syfjar þig trúlega um leið.
En leynivopn á ég – eitt dásemdarþing,
því kliðurinn þagnar þegar ég syng.
Það er hamingjugjöf
og mig langar að hrópa yfir höf.

Á vængjum söngsins hef ég svifið
í sorg og gleði,
sungið dátt með glöðu geði.
Án þess væri lífið svo laust við lit og róm.
Innihaldstóm
væri þá ævitilveran öll.
Á vængjum söngsins hef ég svifið
um lífsins tónahöll.

 

Þakklæti finn ég – þegar ég syng af hjartans lyst.
Rödd mína þen ég hátt svo allir heyri:
Þennan róm, þennan tón, þennan hljóm.

Söngs á vængjum svíf ég – í sorg og gleði.
Syng ég dátt með glöðu geði ,
án þess væri lífið – svo laust við lit og róm.
Innihaldstóm
væri þá ævitilveran öll.
Á vængjum söngsins hef ég svifið
um lífsins tónahöll.

 

Að reka Tónlistarskóla í 30 ár er afrek út af fyrir sig, en til að gera það látlaust, sjaldan æst eða reið, en brosandi glöð í samsöng á góðra vina fundi eins og Sigriður Ragnarsdóttir gerði þarf söngurinn, tónlistin að ljá okkur vængi.

 

Við sjötíu ára afmæli Tónlistarskólans Ísafjarðar, þessa hamingjugjöf, hrópum við yfir firði og höf og vottum virðingu og þakklæti þeim kennurum og nemendum og ekki síst skólastjórunum tveim, Ragnari H Ragnar og Sigríði Ragnarsdóttur, sem lagt hafa grunninn að og byggt upp tónlistarbæinn Ísafjörð í heil sjötíu ár. Tónlistarbæ, sem gerir okkur stolt og eykur lífsgæði. Án þess væri lífið – svo laust við lit og róm. Rödd mína þen ég hátt, svo allir heyri: Hjartans þakkir!

Komið og syngið öll með!

 

 

Peter Weiss, stjórnarmaður Tónlistarfélags Ísafjarðar og forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða.

 

 

DEILA