Rabbarbaragrautur í snarhasti

Skref 1: Byrjum á klunnalegum samlíkingum

Rabbarbarinn er eins og gamli Twin Otterinn sem flutti mann á 13 km/klst frá Ísafirði til Akureyrar árlega til að taka þátt í Andrésar Andar leikunum. Hann er ekki sá áferðarfegursti, og maður tengir hann ógjarnan við lúxus. En hann stendur sína plikt hvernig sem viðrar. Berjasumarið var afleitt, en rabbarbarinn óx eins og alltaf. Eins og Twin Otterinn, er rabbarbarinn dyggur.

Skref 2: Desera-sera

Hérna í gamla daga var kvöldmaturinn alltaf tvírétta. Eða sko, einhverntímann fyrir mörgum áratugum, áður en ég fæddist. Og kannski var það aldrei þannig samt, heldur eru þetta bara einhverjar frásagnir sem eru meira og minna upplognar, misminni eða kannski sannar einhverntímann og einhversstaðar, en ekki alltaf eða allsstaðar. Allt að einu, þá getur maður ekki varist því að ímynda sér að lífið væri betra ef það væri oftar deser, sérstaklega á heimilum með uppþvottavél. Og deserinn þarf ekki að vera flókinn. Skyr með rjóma er alltaf nefnt sem dæmi um einfaldan eftirmat. Deserinn getur verið tilefni í sjálfum sér, eða verið verðlaun fyrir vel unnið verk, til dæmis að komast klakklaust í gegnum mánudag.

Skref 3: Hver er munurinn á rabbarbara og piparkökum?

Við erum komin á þriðja skref og ég er ekkert farinn að segja hvernig uppskriftin er. Fyrst þarf maður að útvega sér rabbarbara. Ég átti engan, svo þegar Gerður Eðvarðs var að tæma frystinn sinn til að flytja suður til Árborgar og auglýsti hestburð af frystum rabbarbara á Ísafjarðarmarkaðnum, greip ég gæsina. En svoleiðis gæsir gefast ekki oft. Þá er hægt að stela rabbarbara. Ólíkt piparkökunum í Hálsaskógi er stolinn rabbarbari bara prýðilegur á bragðið. Margir garðar eru með ofgnótt af rabbarbara, til dæmis er einn við skíðaveginn sem enginn tæki eftir ef yrði aðeins grisjaður.

Skref 4: Taktu því rólega

Taktu því rólega. Þessi uppskrift tekur enga stund, og raunar er hægt að byrja að gera þetta eftir að aðalrétturinn er búinn. Ég vaskaði upp meðfram því að gera grautinn, og það stóð á endum að þegar grauturinn var klár var uppvaskið það líka.

Skref 5: Varúð! Útúrdúr um grjónagraut

Rabbarbarinn sem ég var með var frosinn. Ég setti hann því í pott og botnfylli af vatni og kveikti undir. Vatnið var óþarfi komst ég svo að, og raunar þurfti ég að taka hálfan líter af vökva úr grautnum til að hann yrði ekki of þunnur. Þetta með kartöflumjölið sem mamma segir að sé ekkert mál hefur aldrei tekist almennilega hjá mér og mér finnst bragðið líka verða daufara fyrir vikið. Ekki, undir neinum kringumstæðum, hlusta á ráðleggingar ráðgjafastöðvar heimilanna um gerð rabbarbaragrauts; þar er mælt með svo mikilli vatnsnotkun að mest minnir það mig á grjónagrautinn í DV-pistli Flosa Ólafssonar frá árinu 2000.

Skref 6: Varúð! Útúrdúr um veggskreytingar í Brautarholti

Þegar þetta er farið að sjóða aðeins má taka kartöflustappara til að flýta fyrir niðurbrotinu. Svo má byrja að sykra, til dæmis með Dansukker. Þetta skref þarfnast ekki frekari útskýringar, og því ágætt að nýta tímann til að velta sér uppúr því að þangað til fyrir augnabliki síðan hélt ég að Elli Sveins væri með Dansukker-lógóið á húsveggnum heima hjá sér í Brautarholtinu. Ég var semsagt að bara fyrst núna að veita því athygli að Dansukker-merkið er ekki með átta arma, heldur bara sex.

Skref 7: Bera fram

Eftir kannski 10 mínútur er grauturinn klár. Það má láta hann kólna smá. Á meðan tekur maður Bastogne-kex frá Lu og mylur í botninn á litlum skálum. Það gefur svo skemmtilega áferð að hafa eitthvað stökkt. Ofan á þetta setur maður slettu af grautnum. Ofan á það getur maður svo annaðhvort sett gríska jógúrt frá Örnu eða bara rjóma. Verði ykkur að góðu.

Gylfi Ólafsson.

DEILA