R leiðin: kostnaður vantalinn um 3,3 milljarða króna

Leiðirnar sem Vegagerðin tók til athugunar. Mynd: Vegagerðin.

Vegagerðin birti í gær skýrslu sem dregur fram að stofnkostnaðurinn við R leiðina í Gufudalssveit er um 4 milljörðum króna hærri en Þ-H leiðina sem liggur að hluta til í jaðri Teigsskógar.

Samt er ekki öll sagan sögð þar með. Í skýrslunni er aðeins horft til stofnkostnaðarins en ekki lagt mat á kostnað sem verður vegna þess að R leiðin ( sem Vegagerðin kallar A3) verður lengri en Þ-H leiðin. Þar erum að ræða kostnað sem fellur á bíleigandann þar sem hver ekinn km kostar ákveðna fjárhæð bæði vegna reksturs og afskriftar. Í öðru lagi  þýða fleiri eknir kílómetrar að slysakostnaður eykst. Þá tekur aksturinn lengri tíma og þeir sem í bilnum eru missa þann tíma. Tími er peningar og í umferðarútreikningum er hverjum sem í bíl reiknað tímakaup. Þá er í fjórða lagi aukinn kostnaður sem fellur á veghaldara vegna fleiri kílómetra.

Allur þessir kostnaðarliðir eru við kostnaðargreiningu á verkefni reiknaðir til verðs. Ef gert er ráð fyrir að vegurinn verði tekinn í notkun árið 2022 og að um þriðjungur af Djúpumferðinni færi sig og fari vesturleiðina eftir að Dýrafjarðargöng verða tekin í notkun fæst umferðarspá sem liggur fyrir í fyrri gögnum málsins. Miðað við 5% vexti og núvirðingu á kostnaðarmismuninum til 20 ára fram til 2042 fæst að núvirtur er munurinn á  rekstrarkostnaði þessara tveggja valkosta, R leið og Þ-H leið, hvorki meira né minna en 3,3 milljarðar króna. Þetta tölu hefur bb.is fengið staðfesta.

Þetta er viðbótarkostnaður við þá 11,2 milljarða króna sem Vegagerðin telur að R leiðin muni kosta. Kostnaðurinn verður þá samtals 14,5 milljarða króna. Þessi tölu þarf svo að bera saman við kostnaðinn við Þ-H leið sem er 7,3 milljarðar króna.

Kostnaðarmunurinn verður þá  7,2 milljarða króna á þessum tveimur leiðum.

DEILA