R leiðin : 4 milljarðar kr og 3 ára töf?

Mynd: skýrsla Multiconsult.

Skýrsla Vegagerðar ríkisins um svonefnda R leið um Reykjanes í Reykhólahreppi er á lokastigi.  Magnús Valur Jóhannsson, framkvæmdastjóri hjá Vegagerðinn staðfestir í samtali við bb.is að gengið verði frá henni í byrjun vikunnar og hún gerð opinber um miðja vikuna. Að öðru leyti varðist hann allra fregna af innihaldi skýrslunnar. Tryggvi Harðarson, sveitarstjóri Reykhólahrepps sagði að sér hefði verið kynnt drög að skýrslu og bjóst við að skýrslan myndi ieggja fyrir í vikunni. Hann vildi ekki gefa neitt upp um álit Vegagerðarinnar.

Í tillögu norska fyrirtækisins Multiconsult sem unnin var fyrir sveitarstjórn Reykhólahrepps og kostuð af stjórnarformanni IKEA er kostnaður við R leiðina talinn vera 6,9 milljarðar króna, samanborið við 6,6 milljarða króna við Þ-H leiðina, sem liggur að hluta til í jaðri Teigsskógs.

Það er einkum tvennt sem kunnáttumenn gera athugasemd við í skýrslu Norðmannanna samkvæmt heimildum bb.is. Kostnaður við veginn frá Þorskafirði um Reykjanesið og Barmahlíð og þaðan á Þjóðveg 60 fyrir botni Berufjarðar er talinn vanmetinn. Vegurinn sem fyrir er, er mjór og uppfyllir ekki kröfur sem Vestfjarðavegur 60 er lagður eftir. Heimildir bb.is telja að  vegurinn verði 1,5 – 2 milljörðum króna dýrari en Multiconsult áætlar. Ber heimildum bb.is nokkuð saman um þetta atriði, enda er kostnaður við þjóðvegagerð nokkuð þekktur. Meiri óvissa er um brúargerðina yfir Þorskafjörðinn. Þar er skortur á gögnum umtalsverður enda hefur þessi leið ekki farið í umhverfismat. Þó er talið að brúargerðin sé dýrari á þann veg sem lagt er til en að gera brúna á þurru eins og hefur tíðkast hér á landi. Hleypur mat á umframkostnaði við þennan þátt frá 1 – 2 milljarði króna með þó þeim fyrirvara sem leiðir af ófullnægjandi rannsóknum. Þá á eftir að verðmeta kostnað sem hlýst af því að leiðin er lengri sem nemur 4 – 7 km. Sá kostnaður fellur á vegfarendur og er reiknaður inn  til þess að meta þjóðhagsleg áhrif af framkvæmdinni. Samtals er samkvæmt heimildum bb.is kostnaðurinn talinn vera 2,5 – 4 milljörðum krónum hærri en samkvæmt Þ-H leiðinni. Gangi þetta eftir yrði heildarkostnaðurinn 9,4 – 10.9 milljarðar króna.

Þá ber heimildum nokkuð saman um það að R leiðin muni fresta framkvæmdum um 1,5 – 3 ár,  sé borið saman við Þ-H leiðina sem er tilbúin. Ástæðan er sú að gera þarf umhverfismat og óvarlegt sé að gera ráð fyrir öðru en að kæruferlið verði fullnýtt eins og reyndin hefur verið hingað til.

Í samgönguáætlun sem liggur fyrir Alþingi er gert ráð fyrir 6,3 milljörðum króna til vegargerðar um Gufudalssveit.

DEILA