Nýjar leiðir takk

Haraldur Benediktsson, alþm.

Enginn getur láð okkur, sem viljum uppbyggingu og sókn á Vestfjörðum, að hafa fyllst vonbrigðum þegar úrskurður féll um laxeldi sl. fimmtudag.  Ekki einasta að úrskurðurinn setji  þá atvinnusókn sem þegar er hafin í uppnám, heldur teflir hann í hættu miklum hagsmunum um framtíð og líf fólks og grefur undan trausti á því lagaumhverfi sem sett hefur verið.  Það er vont.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur talað skýrt um að úrskurðurinn eigi ekki að valda tjóni og viðbrögð við honum miði að því.  Það er síðan mikilvægt að allar aðgerðir í kjölfarið styðji við það að  ekki skapist óvissuástand.

Fyrir mér er þetta aðeins spurningin um rétt fólks til að skapa sér framtíð.  Engin velkist í vafa um áhrif uppbyggingarinnar og þá framleiðslu sem hafin er.  Það er ábyrgðarhluti að ógna því.

Sú skoðun mín á úrskurðarnefndum, þeim fjölmörgum sem hér starfa, hefur í langan tíma verið sú að þær standi á þunnum ís.  Fyrir það fyrsta fjalla þær jafnan um stór álitamál og mikla hagsmuni.  Umgjörð þeirra þarf því að vera sterk og skýr.  Spyrja má hvort þær eigi í raun rétt á sér. Við búum jú við sterka dómstóla.

En almennt má segja um þessar nefndir, sem skipta tugum, að þær starfa samkvæmt mismunandi lögum um aðskilin efni.  Því miður gilda um þessar nefndir fátæklegar reglur, fábrotin ákvæði eru um hæfni nefndarmanna og málsmeðferð  er misjöfn.

Ef við ætlum að búa við slíkt fyrirkomulag tel ég tímabært að festa form þeirra í mun betri búning – stjórnsýsludómstól sem hafi ótvírætt traust okkar.

En slíkur dómstóll mun einn og sér ekki  greiða úr þeim flækjum sem nú blasa við – ekki aðeins í málefnum fiskeldis á Vestfjörðum.  Vegna brýnna hagsmuna byggðar og mannlífs á Vestfjörðum verður að ræða setningu laga sem gætu höggvið á áratugagamla hnúta sem hafa tafið framfaramál í fjórðungnum. Með þessu er ekki verið að boða lagasetningu sem leggur til hliðar varfærni gagnvart umhverfinu eða sem gengur gegn réttmætum hagsmunum.  En það er ljóst að ekki er hægt að útiloka það úrræði að vinna að slíku.  Eða öðrum þeim leiðum að ekki dragist lengur að koma framfaramálum Vestfirðinga áfram.

Það var skýr vilji borgarafundar sem haldinn var sl. haust á Ísafirði.

Enginn skal efast um að fiskeldi er komið til að vera og skiptir þjóðarhag allan mikli máli. Það er ekki einkamál Vestfirðinga.

Haraldur Benediktsson.

DEILA