Nú er nóg komið

Haustlitir í Tálknafirði. Mynd: Lilja Magnúsdóttir

Á undanförnum dögum hafa skollið á okkur Vestfirðingum fárviðri af mannavöldum og framtíð okkar er í algjörri óvissu vegna úrskurðar einnar nefndar. Umræðan um fiskeldið hér fyrir vestan er svo öfgakennd og hatursfull að manni stendur ógn af. Reynt hefur verið að benda á upplýsingar frá færustu vísindamönnum, innlendum sem erlendum en á það er ekki hlustað, andstæðingar eldisins fullyrða að þetta hljóti að vera pantaðar niðurstöður. Mér sem vísindamanni ofbýður hvernig fólk leyfir sér að tala niður rannsóknir sem hafa staðið í fjölda ára og verið ritrýndar á jafningjagrundvelli af því það hentar ekki þeim málstað sem það styður.

Ég neita að hlusta á þær móðganir sem ótrúlegasta fólk leyfir sér að láta dynja á okkur Vestfirðingum og finnst það í lagi að kalla íbúa heils landshluta umhverfissóða og að ganga erinda erlendra auðmanna. Við Vestfirðingar erum eini landshlutinn sem vinnur að sameiginlegri umhverfisvottun, Earth Check vottuninni, og á Fjórðungsþingi okkar Vestfirðinga á Ísafirði um helgina samþykktu öll sveitarfélög á Vestfjörðum að halda þeirri vinnu áfram. Á fundi með þá nýráðnum umhverfisráðherra á Patreksfirði síðastliðinn vetur með sveitarstjórnarmönnum í Vesturbyggð og Tálknafirði töluðum við einum rómi um að við vildum veg fiskeldis sem mestan okkur og þjóðarbúinu til hagsbóta. EN við töluðum líka einum rómi um að við vildum að um eldið giltu strangar reglur og að stofnanir ríkisins framfylgdu þeim reglum þannig að það væri ljóst á öllum stigum að verið væri að vinna með hagsmuni náttúrunnar og umhverfisins alls að leiðarljósi. Við gerðum ráðherra það ljóst að það væri ekki í boði að eyðileggja fjöreggið okkar, firðina okkar, og það yrði á engum tímapunkti liðið að ekki væri farið eftir þeim reglum sem settar væru. Við báðum ekki um neinn afslátt fyrir hönd fiskeldisins heldur tókum undir kröfur fyrirtækjanna sjálfra sem hafa óskað eftir skýrari reglum um eldið en lítið orðið ágengt. Fyrirtækin eru sjálf að stefna að vottunum á sinni starfsemi og Arctic Fish hefur nú þegar fengið endurútgefna ASC (Aquatic Stewardship Council) vottun sína um að þeir stundi sjálfbært eldi með sjónarmið umhverfis og samfélags að leiðarljósi og Arnarlax vinnur einnig að þessari vottun. Þessi vottun er sambærileg vottun og MSC vottun sjávarútvegsins sem opnaði verðmæta markaði af því hægt var að sýna fram á að okkar fiskveiðar og vinnsla voru á réttum forsendum.

Ég neita að sitja þegjandi undir þeim ásökunum að við séum að ganga erinda erlendra auðmanna og séum aumir þjónar þeirra. Sannleikurinn er sá að erlendir fjárfestar sáu tækifæri í uppbyggingu fiskeldis hér á landi þar sem hér væri hægt að byggja upp eldi sem stæðist ströngustu umhverfiskröfur og þar af leiðandi opnuðust dýrari markaðir. Þetta gerðist eftir margra ára baráttu manna sem höfðu trú á þessari atvinnugrein og fengu þessa fjárfesta í lið með sér eftir að hafa komið að lokuðum dyrum hjá stærstum hluta íslenskra fjárfesta. Hver er munurinn á okkar fjárfestum og erlendum auðmönnum sem eiga orðið hluta af okkar laxveiðiám og eru að bjóða bændum offjár fyrir jarðir sínar um allt land? Hver er munurinn á okkar fjárfestum og erlendu auðmönnunum sem hafa lagt fjármagn í álver í Reyðarfirði og kísilver á Bakka og allar aðrar fjárfestingar um allt land?

Ég neita að sitja þegjandi undir því að misvitrir hagsmunaaðilar fái að troða endalaust uppi í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum með rangfærslur og skítkast í garð okkar Vestfirðinga þegar við gerðum það sem allir bentu okkur á að gera og fórum að gera „eitthvað annað“.

Það sem mér þykir verst í þessu öllu er að þessir aðilar bendla sig við náttúruvernd og í nafni hennar virðast þeir telja að þeim leyfist bókstaflega allt. Lítið í eigin barm, sérstaklega þið íbúar á suðvesturhorninu og horfið í kringum ykkur, hvar voruð þið þegar Hellisheiðinni var rústað? Óbætanleg náttúra lögð í rúst af því þið þurftuð aukna orku! Hvar voruð þið þegar IKEA reis í hrauninu í Hafnarfirði? Það er endalaust hægt að telja upp alls konar náttúruníð en það er oft betra að benda á flísina í auga bróðurins en horfa framhjá bjálkanum í sínu eigin auga. Hættið að skýla ykkur á bakvið orðið náttúruvernd og horfist í augu við það sem nútímakröfur okkar Íslendinga eru að gera landinu okkar og náttúrunni. Við viljum rafmagn til að geta hlaðið símana okkar og rafbílana, við viljum vegi til að geta komist um landið og við viljum eiga gjaldeyri til að geta flutt inn allar vörurnar sem við pöntum af netinu en það má ekki framkvæma neitt til að uppfylla þessar kröfur því þá rísa upp sjálfskipaðir náttúruverndarsinnar og fordæma það sem gert er!

Við Vestfirðingar héldum að óblíð náttúruöflin væru sú ógn sem okkur stafaði mest hætta af en reyndin er önnur, nefnd sem kippir fótunum undan lífsafkomu okkar hér á Vestfjörðum og eyðileggur það traust sem þó hefur skapast á undanförnum árum. Það mun taka langan tíma að endurheimta tiltrú okkar á það starfsumhverfi og regluverk sem okkur er boðið upp á ef það tekst.

Það er þó eitt sem er algjörlega á hreinu, við Vestfirðingar stöndum saman sem einn maður og ætlum ekki að taka þessu þegjandi. Við biðjum ekki um afslátt á neinum kröfum, aðeins að fá vinna okkar vinnu í friði með framtíðarhagsmuni okkar og þjóðfélagsins í huga.

Í gær skall á okkur fyrsti vetrarbylurinn, hann gekk yfir og ég trúi því að þetta manngerða hamfaraveður sem á okkur dynur núna gangi yfir að lokum og að sólin eigi eftir að skína á okkur á sviði atvinnulífsins eins og sólin skein á haustlitina í skóginum mínum í dag. Öll él birtir upp um síðir.

 

Lilja Magnúsdóttir

Skógfræðingur MSc og skógarbóndi í Tálknafirði.

 

DEILA