Lántökuheimildir verða afturkallaðar

Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri hjá Arctic Fish.

Bréf Sigurðar Péturssonar, framkvæmdastjóra hjá Arctic Fish til Atvinnuveganefndar Alþingis sent föstudaginn 5. okt., sem er áður en úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamála vísaði frá beiðni fiskeldisfyrirtækjanna um frestun réttaráhrifa. Fyrirsögnin er blaðsins.

 

Kæra Atvinnuveganefnd.

Ég var um daginn skammaður hressilega af einum fulltrúa ykkar (Ingu Sæland) fyrir að geta ekki komið til skila til almennings hversu frábær atvinnuvegur fiskeldi er! Ég tek það til mín og skal „ef við lifum daginn af sem atvinnuvegur“ gera mitt til þess að fylgja eftir því verkefni.

EN hvernig umhverfi höfum við skapað eða þjóðfélag þar sem pappírar eða kerfi virðist koma ofar fólki, samfélagi eða heilu byggðarlögunum? Er eðlilegt að vinnuumhverfi starfsmanna sé þannig að það sé ekki ljóst hvort þau hafi vinnu á morgun? Er eðlilegt að nefnd út í bæ liggur svo mikið á að koma „skilaboðum“ sínum áfram að fjölmiðlar fái upplýsingar um afturköllun eldisleyfa á undan fyrirtæki eða starfsmönnum? Ég gæti haldið svona áfram en ég verð að segja að í dag skammast ég mín fyrir að vera hluti af svona þjóðfélagi.

 

Í gær var mér tilkynnt hjá viðskiptabanka okkar (Arion Banka) að lántökuheimildir okkar verða afturkallaðar vegna skilyrða í lánasamningum um fiskeldisleyfi.

Það er kaldhæðni örlagana að þetta er á sama tíma og bankinn boðaði til alþjóðaráðstefnu um fiskeldi. Ég gat eðli málsins samkvæmt ekki tekið nema að hluta þátt í þeirri ráðstefnu en skilst að bæði í fyrirlestrum sem og í kaffihléum hafi umræðan snúist um trúverðuleika þess rekstrarumhverfis sem fiskeldi er skapað hér á landi.

Um hvað snýst baráttan gegn fiskeldi? Svarið við því er einfalt hún snýst um ímynd þ.e.a.s. stangveiðimenn vilja berjast fyrir þeirri ímynd að laxveiðár við Ísland séu með hreinan villilax. Ég skil og virði þessa ímynd sem og þann atvinnuveg sem snýr að sölu veiðileyfa í laxveiðiám,  en er algjörlega á móti þeirri röksemdarfærslu að bæði fiskirækt og sportfiskveiði geti ekki verið atvinnugreinar sem eiga rétt á sér. Í raun ef út í það er farið er munurinn ekki svo mikill þar sem rúmlega helmingur þess „villilaxs“ sem veiddur er hefur verið ræktaður í eldisstöð. Það er rétt að sama hvernig eldistækni er notuð (hefðbundnar sjókvíar, lokuð kerfi eða landeldi) þá er hætta á sleppingum alltaf til staðar. Vil þó benda á að til er búnaður sem er íslenskt hugvit og ég fékk frekari upplýsingar í gær frá forsvarsmönnum Vaka þær upplýsingar að þar er alltaf verið að bæta þennan fiskivaka sem greint getur allan lax sem fer uppí ár. Það er því mögulegt að flokka úr eldislax (eða annað) til þess að skaða ekki ímynd viðkomandi laxveiðiár. Ég hafna öðrum röksemdafærslum andstæðinga fiskeldis sem farið hafa mikinn undir fölsku flaggi umhverfismála gegn þeirri grein matvælaframleiðslu sem viðurkennt er að er sú umhverfisvænasta sem völ er á. Það er líka hagur fiskeldisfyrirtækjanna að fiskur sleppi ekki og að umhverfið og umgjörð eldisins sé á eins umhverfisvænan máta sem kostur. Auk þess getur Ísland með sínar auðlindir af heitu vatni, grænni orku, bláu ökrum og þekkingu sem sjávarútvegur og hliðargreinar þess hafa skapað algjör sérstöðu í fiskeldi á heimsvísu.

„Nú er nóg komið“ hef ég heyrt víða í mínu nærsamfélagi á Vestfjörðum, hlustið á fólkið og berið virðingu fyrir lífsviðurværi og skoðunum þess, kynnið ykkur t.d. færslur starfsmanna okkar (á Facebook) eins og Iðu Jónsdóttur hjá Arnarlax eða Bernharðs Guðmundssonar (Benni í Dal) hjá Arctic Fish.

Í þessum rituðu orðum (kl 7:00) er Benni í Dal að leggja af stað frá höfninni á Þingeyri ásamt 14 öðrum samstarfsmönnum sínum á fimm bátum til þess að sinna löxunum í Dýrafirði sem við erum mjög stolt af enda afburðarvara sem í síðustu viku var þriðja árið í röð vottuð samkvæmt harðasta umhverfisstaðli sem þekkist í fiskeldi (ASC). Þessir starfmenn skiptast næstum jafnt milli þess að koma frá Flateyri og Þingeyri og bakgrunnur þeirra er svipaður þ.e.a.s flestir eru fyrrverandi smábátastjómenn og svo eru nokkrir sauðfjárbændur. Þar sem Benni í Dal er einn af mínum fyrstu samstarfsmönnum og hann vildi koma aftur heim fyrir 7 árum síðan frá Reykjavík. Hann sett bara eitt skilyrði sem stendur enn í dag,  en hann fær „fæðingarorlof“ einu sinni á ári en það er yfir sauðburðinn.

Á Vestfjörðum er heilsársútgerð smábáta næstum að leggjast af og heyrist að miðað við það starfsumhverfi sem þar er verið að skapa að fleiri missi vinnuna. Þarf líklega ekki að skrifa mörg orð um sauðfjárbúskap sem er næstum að verða hobby. Nú er örlagadagur þar sem framtíð fiskeldis er undir því komið hvort nefnd skipuð 5 mönnum (ÚUA) sem kjósa að leggja formsatriði hærra en fólk eða atvinnuveg hefur í hendi sér staðfestir úrskurði sína um afturköllun leyfa.

 

Ef svo fer þá segi ég leggið ykkur fram um að bæta umhverfi smábátasjómanna og sauðfjárbænda þannig að byggð geti haldist á Vestfjörðum, því miður er ekki eitt stöðugildi við laxveiðiár á þessu svæði.

 

Árið 2004 var tekinn ákvörðun um að Ísland ætlaði að byggja grunn að sjókvíaeldi með því að leggja út í afmörkun eldissvæða sem nær mun lengra en annarsstaðar í heiminum og það er vel. Síðan hefur ekkert komið um stefnumörkun í þessum mikilvæga atvinnuveg. Þetta er að mínu mati rót vandans! Ísland hefur alla möguleika að ná sérstöðu í fiskeldi á heimsvísu þó það verði ekki endilega í magni þá höfum við náttúruauðlindir sem og grunn úr sjávarútvegi sem geta stutt undir algjöra sérstöðu okkar afurða. Við sem erum í þessari atvinnugrein erum meira en tilbúin að koma að þessari vegferð og dæmin sýna frá Færeyjum að þegar atvinnuvegur og stjórnvöld taka saman þá getur niðurstaðan verið mjög jákvæð. Færeyjingar eru heimsmeistarar í laxeldi í heiminum og við höfum alla burði til þess að komast við hlið þeirra og jafnvel framúr.

 

Stöndum saman ef það er vilji stjórnvalda að halda áfram og byggja upp fiskeldi. Sköpum umgjörð sem tryggir öryggi starfsfólks og samfélaga þannig að það sé ekki alltaf á morgun sem örlög þeirra er í höndum einhvers „kerfis“ sem hefur ekki verið forritað með tilliti til fólksins eða byggðarlaga.

 

 

Kveðja

Sigurður Pétursson,

Arctic Fish.

DEILA