Landssamband smábátaeigenda:tafarlaus lækkun veiðigjalda

Frá aðalfundi Landssambands smábátaeigenda. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda 2018 ályktaði afdráttarlaust um lækkun veiðigjalda:

Aðalfundur LS krefst tafarlausrar lækkunar veiðigjalda og að þau taki mið af afkomu einstakra útgerðarflokka en ekki meðaltalsafkomu í sjávarútveginum. Fundurinn brýnir forystu félagsins til að berjast með kjafti og klóm fyrir stórfelldri lækkun veiðigjalda. Þá skorar fundurinn á Alþingi að hækka frítekjumark í 40% af fyrstu 5 m.kr. veiðigjaldsins og 20% af næstu 5 m.kr. þess. Fundurinn skorar jafnframt á Alþingi að leiðrétta nú þegar hlut smábáta í veiðigjaldinu frá og með fiskveiðiárinu 2017/2018.

Greinargerð Veiðigjaldið er skattlagning og skattlagning verður að vera réttlætanleg, svo sá sem hana greiðir láti sig hafa það, þó súrt sé. Forsendur fyrir útreikningum þess eru rangar og þess vegna þarf ekki að spyrja um útkomuna.

Um byggðakvótann var líka ályktað og er lagt til að byggðakvótinn renni eingöngu til dagróðrabáta eigu aðila sem hafa lögheimili í sveitarfélaginu.

Byggðakvóti

Aðalfundur LS leggur til að byggðakvóta verði eingöngu úthlutað til dagróðrabáta í eigu aðila sem hafa lögheimili í viðkomandi byggðarlagi. Þá skuli byggðakvóti ekki skilyrtur til afhendingar í beinum viðskiptum til vinnslu á sama stað og honum er úthlutað. Greinargerð. Með þessu skilyrði er gengið fram hjá fiskmörkuðum sem gegna lykilhlutverki í verðmyndun afla hjá útgerðum án vinnslu.

DEILA