Kröfugerð Starfsgreinasambandsins – 425 þús kr. lágmarkslaun

Helstu áherslur í samningaviðræðum við atvinnurekendur verða:

Starfsgreinasambandið leggur af stað í kjarabaráttuna framundan með þá kröfu að lágmarkslaun verði 425 þúsund kr í lok samningstímans að því gefnu að ekki komi til umtalsverðra skattkerfisbreytinga, þannig að sköttum verði létt af lægstu launum og lægri millilaunum.

Forsenduákvæði kjarasamnings verði meðal annars að ójöfnuður í íslensku samfélagi aukist ekki á samningstímanum. Ójöfnuður skal mældur með hliðsjón af öllum skattskyldum tekjum, að teknu tilliti til áhrifa skatta og bóta (ráðstöfunartekjur). Markmið ákvæðisins er að tryggja að launahækkanir til láglaunafólks skili sér án þess að stigmagnast upp allan launastigann. Heimilt skal að segja upp samningi verði um aukningu ójöfnuðar að ræða.

Sett skulu inn ákvæði sem takmarka heimildir atvinnurekanda til að gera húsaleigu hluta af ráðningarkjörum.

Staða lífeyrirssjóðakerfisins verði rædd og sérstaklega hvernig nýta megi fjárfestingagetu þess til uppbyggingar á húsnæðismarkaði sem nýtist lág- og miðtekjuhópum. Farið er fram á rýmkaðar heimildir launafólks til að nýta séreignarsparnað til fyrstu útborgunar húsnæðiskaupa eða til niðurgreiðslu á húsnæðislánum.

Kröfugerð gagnvart stjórnvöldum, nokkur helstu atriði:

Skattar:

Lægstu laun verði skattfrjáls með tvöföldun persónuafsláttar, sem verði síðan stiglækkandi með hærri tekjum, þannig að lækkun skatta á lág- og millitekjuhópa verði m.a. fjármögnuð með hærra skattaframlagi þeirra tekjuhæstu.

Fjármagnstekjuskattur verði hækkaður til samræmis við það sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Fjármagnseigendur verði heldur ekki undanskildir greiðslu útsvars.

Þá þarf að endurskoða fasteignaskatt þannig að hann stökkbreytist ekki með markaðshækkunum á verði íbúðarhúsnæðis og verði þar með óeðlilega íþyngjandi fyrir almennt launafólk sem hefur tekist að fjármagna íbúðakaup sín.

Húsnæðismál:

Gert verði þjóðarátak í húsnæðismálum, sambærilegt að vöxtum og áhrifum og verkamannabústaðakerfið sem var og hét. Ráðist verði í sameiginlegt átak ríkis, sveitarfélaga og lífeyrissjóða til að gera það að veruleika. Skoðaðar verði útfærslur sem gera ráð fyrir fjármögnun verkamannabústaðakerfisins í gegnum bein framlög ríkisins (t.a.m. stofnframlög Íbúðalánasjóðs), í gegnum sérstakt iðgjald greitt af atvinnurekendum, í gegnum fjárfestingu lífeyrissjóða eða blöndu af öllum þessum leiðum. Horft verði til þess möguleika að semja um endurráðstöfun á þegar umsömdum hækkunum lífeyrissjóðsiðgjalda til húsnæðisuppbyggingar. Sveitarfélög leggi sitt af mörkum með veitingu lóða og veiti verkefninu sérstakan forgang í skipulagsvinnu. Launafólk fái auknar heimildir til að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði til kaupa á fasteign og niðurgreiðslu fasteignalána. Tryggt verði að stofnframlög nýtist öllu landinu og Bjarg önnur félagsleg húsnæðisfélög byggi íbúðir um allt land.

Almannatryggingar og bætur:

Barnabætur verði hækkaðar og dregið úr skerðingum þannig að skerðingar komi ekki til áhrifa undir lágmarkstekjum og skerðingarviðmið fylgi síðan launaþróun. Þá þarf að hækka vaxta- og húsnæðisbætur og draga úr skerðingum vegna tekna og eigna.

Lögð er áhersla á að öryrkjar og aldraðir njóti sömu kjarahækkana og launafólk á almenna vinnumarkaðnum. Draga þarf verulega úr áhrifum skerðinga hjá ellilífeyrisþegum og öryrkjum í almannatryggingakerfinu.

 

Vextir og verðtrygging:

Verðtrygging á neytendalánum verði afnumin, um leið og komið verði í veg fyrir að lántökukostnaður flytjist aftur á lántaka með öðrum leiðum. Húsnæðisliður verði tekinn út úr lögum um vexti og verðtryggingu. Seðlabankinn stuðli að lækkun stýrivaxta og þak verði sett á húsnæðisvexti með það að markmiði að ná hér vaxtakjörum sem eru sambærileg því sem tíðkast í nágrannalöndunum.

Fæðingarorlof:

Lengja fæðingarorlof beggja foreldra í samtals allt að 18-24 mánuði til að bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla verði brúað og til að búa barnafjölskyldum betra líf. Heimilt verði að annað foreldrið nýti allan réttinn sé hitt foreldrið alfarið útilokað frá því að gera það, t.d. vegna andláts, tæknifrjóvgunar, útilokunar frá landvist eða að foreldri sé ómögulegt að vera til staðar af öðrum óhjákvæmilegum orsökum.

 

DEILA