Kallað eftir borgarafundi

Guðmundur Halldórsson, skipstjóri í Bolungavík hefur sent bréf til allra sveitarstjórna á Vestfjörðum og óskað eftir því að þau ásamt Vestfjarðastofu haldi almennan borgarafund fyrir lok október. Tilefni bréfsins eru afleiðingar af kærum og úrskurðum sem hafa torveldað framfaramál í fjórðungnum undanfarin ár svo sem vegagerð í Gufudalssveit, virkjanaframkvæmdir og nú síðast uppbyggingu fiskeldis.

Guðmundur Halldórsson hefur fimm sinnum áður beitt sér fyrir borgarafundum. Sá fyrsti var haldinn 2003 á Ísafirði undir kjörorðinu  – orð skulu standa – en þá hafði ríkisstjórnin ákveðið að fresta um 3 ár að koma á línuívilnun. Eftir fundinn lét ríkisstjórnin undan og stóð við fyrri fyrirheit.

Bréfið er svohljóðandi:

 

Vestfirðingabann

 Á baksíðu nýjasta tölublaðs Bændablaðsins, málgagns bænda og landsbyggðar, birtist ofangreind fyrirsögn.  Þar er því lýst hvernig ýmist kærur eða beinlínis opinber bönn hafa tafið eða komið í veg fyrir framkvæmdir til atvinnusköpunar eða bráðnauðsynlegar samgöngur. Flest þessi mál eru í hnút þrátt fyrir að sveitastjórnir og Vestfjarðastofa hafi lagt sig fram við að koma þeim í höfn. Ég tel því að forystumönnum í sveitastjórnum og atvinnulífi væri mikill styrkur að því að finna í verki eindregin stuðning almennings á Vestfjörðum. Ég vildi því leggja til að sveitastjórnir og Vestfjarðastofa boðuðu til annars borgarafundar fyrir októberlok, sem mætti t.d. halda samtímis á Ísafirði og Patreksfirði, og sendu þannig ráðamönnum og stofnanaveldi landsins skýr skilaboð um vilja fólksins.

Bolungarvík 6. október 2018

Með bestu kveðjum,

Guðmundur Halldórsson,

fyrrverandi skipstjóri, Bolungarvík

DEILA