Innfjarðarækjuveiði lögð til

Rækjuveiðar í Ísafjarðardjúpi. Mynd: bb.is

Samkvæmt stofnmælingu Hafrannsóknarstofnunar, í haust, þá hefur rækjustofninn í Ísafjarðardjúpi styrkst frá síðustu mælingu.  Stofnvísitalan hafði lækkað stöðugt á árunum 2013 til 2017 en nú er loksins viðsnúningur. Stofnunin metur veiðistofn rækju í Ísafjarðardjúpi 912 tonn. Útbreiðsla rækjunnar var að miklu leyti takmörkuð við svæðið innst í Ísafjarðardjúpi en einnig fannst hún í Útdjúpinu.

Fram til ársins 2003 þá var leyfilegt að veiða 100% af veiðistofni hvers árs.  Eftir að rækjuveiðar hófust aftur árið 2011 þá hefur verið leyft að veiða um 50% af veiðistofni hvers árs.  50% af veiðistofni er því skilin eftir í sjó til að styðja við uppbyggingu stofnsins og/eða til að drepast.  Rækjusjómenn hafa óskað eftir því að veiðihlutfallið verði hækkað aftur til að auka afrakstur rækjunnar í Djúpinu.  Með núverandi fyrirkomulagi eru mikil verðmæti að fara forgörðum.  Það er mat rækjusjómanna að helsti áhrifavaldur á afrán rækjunnar sé þorsk og ýsugengd, en ekki veiðarnar.  Þorskurinn og ýsan gera mikinn usla í rækjunni og hrekja hana inn eftir Djúpinu og inn á firðina.

Rík hefð er fyrir rækjuveiðum og vinnslu í Ísafjarðardjúpi. Upphaf rækjuveiða við Ísland má rekja til þess að Símon Olsen og Ole G. Syre hófu tilraunaveiðar á rækju í Ísafjarðardjúpi árin 1923 og 1924.  Undanfarin ár þá hafa sjö bátar stundað rækjuveiðar í Djúpi, þrír frá Bolungarvík, þrír frá Ísafirði og einn frá Súðavík. Um 14 sjómenn stunda veiðarnar að jafnaði.   Á Ísafirði er rækjuverksmiðjan Kampi starfandi með um 40 starfsmenn í vinnu.

Hafrannsóknarstofnun hefur lagt til við stjórnvöld að rækjuveiðar í Djúpinu, fiskveiðiárið 2018/2019, verði einungis 456 tonn.  Þ.e.a.s. 50% af veiðistofni. Í tilkynningu Hafrannsóknarstofnunar segir að hafi verið  af þorskseiðum í Ísafjarðardjúpi. Því leggur Hafrannsóknastofnun til að veiðieftirlitsmaður frá Fiskistofu fylgist náið með upphafi rækjuveiða í Ísafjarðardjúpi og að viðkomandi veiðisvæði verði lokað ef meðafli seiða í rækjuafla fari yfir viðmiðunarmörk.

Fyrrverandi bæjarstjóri á Ísafirði, Kristján Þór Júlíusson Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mun á næstu dögum gefa út reglugerð um aflamark rækju fiskveiðiárið 2018/2019.

DEILA