Höldum áfram með Þ-H leiðina ef R leiðin er dýrari og óraunhæfari

Frá fundi á Reykhólum þar sem skýrsla Multiconsult var kynnt. Ingimar Ingimarsson, oddviti fyrir miðri mynd. Mynd: Vegagerð ríkisins.

Oddviti Reykhólahrepps, Ingimar Ingimarsson, lýsti því yfir á almennum íbúafundi á Reykhólum þann 28. júní í sumar, þar sem skýrsla norska ráðgjafarfyrirtækisins Multiconsult var kynnt, að ef R leiðin kæmi illa út í samanburði við Þ-H leiðina yrði haldið áfram með Þ-H leiðina.

Nokkrum dögum síðar hélt oddvitinn ásamt varaoddvitanum fund með íbúum á bæjunum Stað og Árbæ og kynnti fyrir þeim þau áform sveitarstjórnar að óska eftir því að Vegagerð ríkisins  myndi gera samanburð á  Þ-H leiðinni við þá kosti sem Multiconsult benti á, R leiðina og D2 jarðgangaleið.

Kristján Þór Ebenesarson,bóndi á Stað sagði í viðtali við bb.is að oddvitinn hefði á þeim fundi endurtekið ummæli sín og sagt ennfremur að þessi skýrslubeiðni þyrfti ekki að tefja fyrir því að framkvæmdir gætu hafist.

Í þriðja sinn viðhafði oddvitinn Ingimar Ingimarsson þessi ummæli á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis með sveitarstjórn Reykhólahrepps sem haldinn var 7. september.

bb.is hefur sent oddvitanum fyrirspurn um það hvort hann muni nú styðja Þ-H leiðina eftir að skýrsla Vegagerðarinnar er komin fram.

Svar hefur ekki borist.

DEILA