Hafdís Gunnarsdóttir: eigum ekki að sætta okkur við frekari tafir

Hafdís Gunnarsdóttir, formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson

Hafdís Gunnarsdóttir, formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga segir að Vestfirðingar eigi ekki að sætta sig við frekari tafir og fara að ráðleggingum Vegagerðarinnar.

Aðspurð um viðbrögð við skýrslu Vegagerðarinnar sem birt var í gær segir hún:

„Nú þegar Vegagerðin hefur borið saman leiðirnar Þ-H og A3 um Gufudalssveit er ljóst að hún telur Þ-H leiðina vera þá bestu til að bæta vegasamgöngur um sunnanverða Vestfirði. Í samgönguáætlun er gert ráð fyrir tæpum 7 milljörðum á næstu fjórum árum í Vestfjarðaveg um Gufudalssveit, en Vegagerðin áætlar að Þ-H leiðin kosti 7,3 milljarða á meðan A3 leiðin kosti 11,2 milljarða. Ef farin yrði A3 leiðin er hætta á að framkvæmdinni yrði seinkað enn meira þar sem vantar 4 milljarða upp á. Þ-H leiðin er því ódýrari, hún er styttri og getur verið tilbúin 2022 á meðan A3 leiðin yrði ekki tilbúin fyrr en í fyrsta lagi 2024. Mikilvægast af öllu er að umferðaröryggið er talið meira með Þ-H leiðinni en A3. Við höfum beðið nógu lengi eftir þessum samgöngubótum og eigum ekki að sætta okkur við frekari tafir. Að mínu mati eigum við að fara að ráðleggingum Vegagerðarinnar og leggja veginn í gegnum Teigsskóg.“

DEILA