Fyrirhugaður vindmyllugarður á Garpsdalsfjalli 126 MW

Mynd af fyrirhuguðum vindmyllugarði. Mynd: reykholar.is

Í síðustu viku var kynningarfundur í Króksfjarðarnesi um fyrirhugaðan vindorkugarð á Garpsdalsfjalli. Frá því er sagt á vef Reykhólahrepps að málinu standi EM Orka sem er nýtt fyrirtæki á Íslandi og stofnað til að virkja vindorku.  Eigendur eru danskt fyrirtæki Vestas og stærsti vindmylluframleiðandi í heiminum sem á 50%, og írskt fyrirtæki sem heitir Emergin Markets Power. Það vinnur að þróun vindorkugarða og á einnig 50%. Starfsmenn og stjórnendur eru 6. Á Írlandi eru 5 og 1 á Íslandi, Ríkharður Örn Ragnarsson.

Kynning á verkefninu sbr vef Reykhólahrepps:

Það sem mælir með virkjun vinds er að það er umhverfisvænn kostur og afturkræfur, öll mannvirki sem þarf að reisa eða grafa er hægt að fjarlægja og ganga frá þannig að ummerki verða lítil. Það er hagkvæmt að virkja vindinn, stofnkostnaður lítill miðað við aðra kosti.

Það er hægt að byggja vindorkuver tiltölulega hratt þegar undirbúningsvinnu er lokið, og tækni við smíði á vindmyllum er alltaf að fleygja fram.

Þessi virkjun er fyrsta verkefni EM Orku á Íslandi. Eftir nokkrar athuganir varð þessi staður fyrir valinu vegna margra kosta. Þeir helstu eru nálægð við tengivirki í Geiradal, en reiknað er með að tengjast aðveitustöðinni þar með 6 km. jarðstreng. Vindskilyrði eru góð, sterkur vindur og stöðug vindátt skv. upplýsingum frá nærliggjandi veðurstöðvum. Hafnar eru veðurmælingar sem standa munu í 2 ár.

Svæðið er það langt frá byggð að hljóðmengun mun ekki valda ónæði  og landslagið þannig að vindmyllurnar sjást ekki úr nágrenninu. Hins vegar munu þær sjást lengra að, og meðfylgjandi eru myndir þar sem þær eru settar inn í raunstærð miðað við umhverfið.

Vindmyllurnar verða 35 talsins og möstrin verða 91,5m. Upp á enda á spaða uþb. 150m. háar. Framleiðslugeta verður 126 MW, eða meira en tvöfalt fyrirhugað afl Hvalárvirkjunar.

 

Staða verkefnisins, það sem lokið er og áætlanir eru á þá leið að byggingarleyfi fáist árið 2021 og vindmyllugarður verði kominn í rekstur ári síðar, 2022. Reksturinn verði svo í 25 ár til 2047.

Reiknað er með að á byggingartíma vindorkugarðsins verði alls um 200 störf. Innlendir verktakar munu sjá um jarðvinnu og smíði sökkla, vegagerð og flutninga, en sérhæfðir starfsmenn Vestas munu sjá um uppsetningu sjálfra vindmyllanna.

Þegar uppsetningu er lokið og rekstur hafinn, eru 25 störf við stjórnun, rekstur og viðhald. Þar af verða 20 störf í nærumhverfi, þar sem reiknað er með að starfsmenn búi innan 40 km. radíus frá vindmyllunum.

Það er áformað að stofna samfélagssjóð fyrir íbúa Reykhólahrepps, og greiða í hann 15 milljónir kr. á ári.

Hægt verður að sækja um framlög úr sjóðnum til verkefna í Reykhólahreppi tengd heilsueflingu, menntun, innviðauppbyggingu og nýsköpun.

 

DEILA