Frönsku skútunni Inook í Ísafjarðarhöfn stolið í gær

Inook í Ísafjarðarhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Skútunni Inook var stolið í gær, en hún lá í Ísafjarðarhöfn. Skútan er nýsmíði og smíðuð í Frakklandi.  Eigandinn, franskur maður, geymir hana í Ísafjarðarhöfn. Fljótlega varð þess vart að skútan var horfin og innan fárra klukkustunda var búið að finna skútuna og í gærkvöldi var henni siglt í höfn á Rifi og maður handtekinn.

Samkvæmt upplýsingum bb.is kostar skúta af þessari gerð 50 – 100 milljónir króna. Torfi Einarsson, er vaktmaður og segir hann að ekki sé á þessari stundu vitað neitt um það hverjir tóku skútuna né af hverju. Hins vegar megi segja að skjót viðbrögð heimamanna,  lögreglu og landhelgisgæslu sýni að vel er fylgst með af hálfu borganna og að yfirvöld bregðast hart við þannig að það séu skýr skilaboð til þeirra sem hafa misjafnt í hyggju. Segir Torfi að hann viti til þess að erlendis séu brögð að því að dýrum skútum sé stolið í skjóli margmennis.

15 hnúfubakar

Torfi Einarsson, sagðist hafa litið eftir skútunni á laugardagskvöld og verið að huga að henni. Á sunundagsmorguninn fór ég niður á höfnina og varð einskis var, „ ég hugsaði að bærinn væri eins og liðið lík svo ég ákvað að fara  með konunni í göngutúr út á Óshlíð. Við gerðum það og gengum þar í fallegu veðri og nutum útsýnisins, enda er Óshlíðin fallegasta fjallahlíð á Íslandi. Sól var yfir öllu og fegurðin engu lík. Ég taldi 15 hnúfubaka út á Djúpinu. En það hringir í mig kunningi minn og spyr mig hvar er Inook. Ég tók það ekki alvarlega og sagði við hann hættu að ljúga að mér. Héldum við áfram göngunni, en þá  hringdi annar kunningi minn og spurði að því sama.“   Þá var ekkert annað að gera en að klára göngutúrinn, sagði Torfi og „ég fer inn eftir og sé að báturinn er farinn.“ Var lögreglan strax látin vita og hafði snarar hendur á lofti.

Torfi Einarsson.
DEILA