Fiskeldi í sjó eini raunhæfi kosturinn

Dr. Þorleifur Ágústsson.

Líffræðingarnir og doktorarnir Þorleifur Ágústsson og Þorleifur Eiríksson komast að þeirri niðurstöðu að fiskeldi í sjó sé eini raunhæfi kosturinn í aðsendri grein sem birtist á vef bb.is í gærkvöldi. Þar fara þeir yfir fiskeldi á ítarlegan og fræðilega hátt og gera grein fyrir þeim kröfum sem gerðar eru og á að gera til fiskeldis í sjó. Benda þeir á að fiskeldi er matvælaframleiðsla sem skilji eftir sig minna kolefnisspor en önnur matvælaframleiðsla.

Þeir eru kunnugir laxeldi í Noregi og segja að norskur villilax standi vel og gefi vel af sér. Ástandið í Noregi sé gott þrátt fyrir að annað mætti halda miðað við umræðuna hér á landi. Vissulega hafi lax sloppið, eldislax hafi gengið upp í ár og veiðst þar, og hafi líka æxlast við villtan fisk, en engu að síður sé langt í frá að villti laxastofninn sé ekki lengur villtur. Það sé ferskvatnssníkjudýr sem sé laxinum erfiðast  sem er á engan hátt tengt fiskeldinu.

Í lokaorðum segir í greininni:

„Fiskeldi sem fylgir ströngum reglum hvað varðar aðbúnað og eftirlit er iðnaður sem á fullan rétt á sér. Fiskeldi hefur verið farsæl atvinnugrein í Noregi og skipt gríðarlegu máli fyrir byggðir landsins. Akkúrat eins og fiskeldi er farið að sýna sig gera fyrir byggðir Íslands.“

Greinina er að finna undir aðsendar greinar hér á vefnum.

Dr. Þorlefur Eiríksson.
Dr. Þorleifur Ágústsson.
DEILA