Dýrafjarðargöng og svo lokað?

Horft úr Arnarfirðinum til Dynjandisheiðar. Mynd:Kristinn H. Gunnarsson.

Samkvæmt fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2019-2013 mun Dýrafjarðargöngum ljúka árið 2020. Hins vegar verður ekki byrjað á endurbótum á Dynjandisheiði að neinu ráði  fyrr en árið 2022 og engar verulegar fjárhæðir eru veittar í veginn fyrr en 2023. Að vísu segir í tillögu Samgönguráðherra að byrjað verði á Dynjandisheiðinni árið 2020, sama ár og göngunum lýkur. En þá er einungis 300 mkr fjárveiting og kostnaður við 35,2 km nýjan veg er áætlaður 5.300 milljónir króna. Síðan er engin fjárveiting árið eftir 2021. Næsta ár 2022 eru aftur einungis 300 mkr. Það er ekki fyrr en 2023 sem fjárveitingin verður eitthvað sem munar um eða 1.200 milljónir króna. Samt vantar þá enn um 2/3 af kostnaðinum sem verður þá veitt einhvern tímann 2024 og síðar. Ekkert segir um það á hve löngum tíma fjárveitingarnar koma.

Ljóst er þó að ætlunin er að aka á núverandi vegi í mörg ár að miklu hluta til. Miðað við þessar fjárveitingar verða árin orðin 9 áður en vegurinn um Dynjandisheiði verður orðinn fullbúinn. Þá verður komið árið 2029.

Þá vaknar spurningin hvernig er Vegagerðinni ætlað að halda leiðinni opinni á meira og minna núverandi vegi sem er lokaður stóran hluta vetrarins. G. Pétur Matthíasson, upplýsingarfulltrúi Vegagerðarinnar segir að engar ákvarðanir hafi verið teknar,  „en ljóst er að það er ekki einfalt að þjónusta heiðina að vetri. En líklegt má telja að menn leiti leiða til að hægt verði að hafa opið lengur og opna fyrr en gert hefur verið undanfarin ár.“

DEILA