Bjargir bannaðar

Kjartan Jakob Hauksson.

Úrskurðarnefnd umhverfis-og auðlindamála hefur sett hryðjuverkalög á
Vestfirðinga, hvorki meira né minna. Hryðjuverkalög þau fyrri voru sett
á landið fyrir tíu árum sem frægt er orðið og fjölmiðlar hafa keppst við
að gera þeim góð skil síðustu daga. En seinni hryðjuverkalögin sem ég
vil kalla svo, samanber fyrri og seinni heimsstyrjöldin er það sem litar
allt mannlíf hér fyrir vestan í svörtum lit í dag. Hryðjuverkalögin þau
fyrri voru sett á okkur af erlendu ríki sem reyndar hafði sýnt af sér
dólgshátt áður, samanber baráttu um landhelgi okkar en kom óvænt í bak
okkar engu að síður. Hryðjuverkalögin þau seinni komu þó enn meira á
óvart því þar var um alíslenskan Trójuhest að ræða sem gerir þetta enn
óvæntara og sárara. Engin þarf óvini eigandi svona vini.
Sagan mun dæma þennan nýja  gjörning sem þann fyrri á þann veg að hann
var gerræðislegur, rakalaus og ósanngjarn. Og sem fyrr munu þeir sem
slíka ákvörðun tóku hafa skömm fyrir og mun skömmin endast þeim um aldur
og ævi.

Nefndin sem um ræðir hefur eða í það minnsta tekur sér mjög afdrifaríkt
dómsvald svo nefndarmenn eru þar í stöðu dómara og þá er eðlilegt að
gera sambærilega kröfu til nefndarmanna og gerð er til skipan dómara
almennt.
Um skipan dómara er höfð sú regla að hann má ekki vera háður
stjórnvöldum eða öðrum hagsmunaaðilum svo hlutleysis sé gætt. Dómari má
meðal annars ekki hafa hagsmuni af niðurstöðu málsins né tengjast máli
eða málsaðilum.
Það er því full ástæða til og í anda gegnsærrar stjórnsýslu að upplýst
verði opinberlega um tengsl nefndarmanna við hagsmunaaðila ef einhver
eru, svo sem mögulega þrýstihópa. Eins að upplýst verði um fyrri
skrif/greinargerðir nefndarmanna ef einhver eru sem ástæða væri til að
gætu ógnað hlutleysi þeirra. Á þetta bæði við nefndarmenn og þá eða þann
aðila sem skipaði í nefndina eða nefndin heyrir undir. Hlutleysi á að
vera sýnilegt og uppi á borðum svo því megi treysta.

Vil gera fleyg orð merks Arnfirðings að mínum þegar ég segi, „Vér
mótmælum allir“.

Kjartan Jakob Hauksson

DEILA