Alþjóðlegur fundur heilbrigðisráðherra um geðheilbrigðismál

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á fundi í Lundúnum.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sat í vikunni tveggja daga fund um geðheilbrigðismál í London (Global Ministerial Mental Health Summit) þar sem ráðherrar heilbrigðismála frá fjölmörgum ríkjum, ásamt færasta fagfólki, frumkvöðlum og sérfræðingum á sviði stefnumótunar báru saman bækur sínar. Á fundinum var rætt um mikilvægi þess að leiðtogar þjóða heims taki höndum saman og sjái til þess að geðheilbrigðismál og aðgerðir til að bæta geðheilbrigðisþjónustu fái það vægi sem málaflokknum ber.

Í tilkynningu frá Velferðarráðuneytinu segir að geðheilbrigðismál séu víðfeðmur málaflokkur sem varða flesta þætti mannlegs lífs og samfélög í heild. „Geðheilbrigðisvandi er ein af stærstu heilbrigðisáskorunum 21. aldarinnar sem vegur þungt í efnahagslegri byrði þjóða og talið er að sú byrði eigi enn eftir að þyngjast. Fram að þessu hefur áhersla fyrst og fremst verið lögð á að mæta þörfum þeirra sem þurfa með gagnreyndri geðheilbrigðisþjónustu en áherslan færist nú í vaxandi mæli á þörfina fyrir víðara sjónarhorn, þar sem sjónum er jafnframt beint að því að efla geðheilbrigði með stórefldum forvörnum og snemmtækri íhlutun. Til að ná þessum markmiðum er kallað eftir stórauknu samstarfi þjóða og jafnframt ríkri áherslu á að hvert land stuðli að öflugu samstarfi á þessu sviði milli ráðuneyta, ríkis og sveitarfélaga, notenda og þjónustuveitenda.“

Fyrirhugað er að gefin verði út sameiginleg yfirlýsing fundarins í London þar sem tilgreind verða markmið og leiðir til að efla geðheilbrigði og jafna aðgengi fólks að geðheilbrigðisþjónustu.

Heilbrigðisráðherra kynnti áherslur Íslands

Á fundinum fjallaði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra um þær áherslur sem unnið er að á Íslandi til að efla geðheilbrigði og bæta geðheilbrigðisþjónustu. Lagði ráðherra áherslu á mannréttindi, valdeflingu, afstofnanavæðingu geðheilbrigðisþjónustunnar og þjónustu í nærumhverfi fólks. Hún ræddi mikilvægi samvinnu þvert á stofnanir og stjórnsýslustig og gerði að umtalsefni forvarnarverkefni á borð við heilsueflandi samfélög og skóla. Eins sagði hún frá þeirri stefnu að efla hlutverk heilsugæslunnar á sviði geðheilbrigðisþjónustu með auknu aðgengi almennings að þjónustu sálfræðinga og ræddi um starfsemi nýrra geðheilbrigðisteyma um allt land.

 

DEILA