Allt að 49% afsláttur af veiðigjaldi

Fjórðungssamband Vestfirðinga hefur vakið athygli á því að álagt veiðigjald á vestfirskar útgerðir hafi liðlega þrefaldast á milli fiskveiðiára frá 2016/17 til 2017/18. Hækkaði samanlagt veiðigjald úr 288 milljónum króna upp í 923 milljónir króna.

Þegar athuguð eru gögn sem Fiskistofa birtir þá eru einkum tvær skýringar á þessu. Annars vegar að vegna góðrar afkomu í sjávarútvegi árið 2015 hækkaði veiðigjaldið pr veitt þorskkíló út 11,09 kr upp í 22,98 kr. Það er rúmlega tvöföldun. Hin skýringin er að seinna árið féll niður fimm ára sérstakur afsláttur til útgerða vegna kaupa þeirra á aflahlutdeild til ársloka 2011. Var afslátturinn veittur til þess að standa undir vaxtakostnaði við kaupin.

Vestfirskar útgerðir fengu 147 milljónir í sérstakan afslátt fiskveiðiárið 2016/17. Þá er einnig veittur afsláttur 20% af fyrstu 4,6 milljónum króna af veiðigjaldinu og annar 15% afsláttur af næstu 4,6 milljónum króna. Samanlagður afsláttur til vestfirskra útgerða af þessum ástæðum var tæpar 29 milljónir króna fiskveiðiárið 2016/17 og 43 milljónir næsta fiskveiðiár 2017/18. Afslátturinn er 49% af veiðigjaldinu hjá þeirri verstöð sem hæstan afslátt fékk, Hnífsdal. Afsláttur útgerða í Bolungavík og á Patreksfirði var 40%.

Fyrra árið voru veiðigjöld vestfirskra útgerða 460 milljónir. Afslættirnir námu 175 milljónum króna eða 38%  og til greiðslu komu 285 milljónir króna.

Seinna fiskveiðiárið voru veiðigjöldin 950 milljónir og afslættir 54 milljónir og til greiðslu komu 896 milljónir króna samkvæmt yfirliti Fiskistofu. Er það nokkru lægra en fram kemur í yfirlitinu frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga.

veiðigjald vestfirskra fyrirtækja fiskveiðiárið 2016/17.
DEILA