Aðför að Vestfjörðum.

Ásgeir Sveinsson, bæjarfulltrúi, Vesturbyggð.

Ég er stoltur íbúi Vesturbyggðar og hreinræktaður Vestfirðingur. Ég er fimm barna faðir og elska umhverfið og náttúruna. Ég er sauðfjárbóndi og stoltur yfir því að geta nýtt náttúruna með skynsömum hætti og ræktað besta lambakjöt í heimi.

Ég er á lista sjálfstæðismanna til Alþingis,er bæjarfulltrúi og sit í bæjarráði Vesturbyggðar.Hef setið í bæjarstjórn fyrir Sjálfstæðismenn síðan 2010 og gegnt mörgum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn í áratugi.

Deili hér frétt og skrifa út frá henni.

Verði réttaráhrifum ekki frestað þá mun ég segja mig úr Sjálfstæðisflokknum og skora á aðra að gera slíkt hið sama. Ég mun þar á eftir leggja mitt af mörkum til þess að enginn úr þeim flokki fái brautargengi í Norðvesturkjördæmi sem þingmaður Íslendinga. Ef þetta verður ekki lagað þá lít ég svo á að þið hafið brugðist okkur.

Ég hef verið öflugur smali hingað til.

Áhugaleysi og málleysi þingmanna kjördæmisins er algjört!

Við Vestfirðingum blasir hrun álíka því og þegar kvótinn var seldur frá okkur um 1990. Vonir og væntingar okkar um bætta og betra tíma í fallegu fjörðunum okkar þar sem viljum búa og ala upp börnin okkar er stefnt í hættu og óvissan er ólíðandi.

Fáum ekki að byggja upp með rafmagni,fáum ekki veg gegnum Gufudalssveit eða Dynjandisheiði,ófær vegur að Látrabjargi og Rauðasandi,fiskeldið í uppnámi, ferðaþjónusta fjóra mánuði á ári þar sem ekki er hægt að halda úti mannsæmandi snjómokstri að okkar helstu náttúruperlum,sjávarútvegur og landbúnaður aldrei veikari og svo mætti lengi telja.

Á hverju eigum við að lifa?
Við hvað megum við vinna?
Hvað þóknast öðrum að við gerum hérna?
Erum við Vestfirðingar þau einu sem vilja ekki umhverfinu vel?
Hvað bull er í gangi gagnvart okkur Vestfirðingum.

Tímar tals og sátta er liðinn, nú þarf aðgerðir. Ég skora á þingmenn að taka afstöðu sem fyrst til að róa öldurnar,þessu þarf að kippa í liðinn áður en skaðinn verður enn meiri.

Ásgeir Sveinsson.

 

DEILA