Staðir 2018 heppnaðist virkilega vel

Jökulöldur. Mynd: Aðsend.

Staðir / Places er listahátíð sem er haldin annað hvert ár og teygir sig yfir sunnanverða Vestfirði. Hugmyndin að hátíðinni kom þegar stofnendur hennar, Þorgerður Ólafsdóttir og Eva Ísleifsdóttir, sem hafa taugar til svæðisins, ferðuðust reglulega um Vestfirði árið 2008. Þær heilluðust af landslaginu og fannst tilvalið að vinna list sem talaðist á við náttúruna. Hátíðin var svo sett á laggirnar fyrst árið 2014 og var þetta því í þriðja sinn sem hún var haldin. Í ár var hátíðin haldin dagana 7. til 31. ágúst og voru verk eftir listakonurnar Gunndísi Ýr Finnbogadóttur, Hildigunni Birgisdóttur og annar af stofnendum hátíðarinnar, hana Þorgerði Ólafsdóttur. Sýningarstjóri hátíðarinnar er svo hinn stofnandi hátíðarinnar, Eva Ísleifsdóttir.

Verk Gunndísar er bók að nafninu 1,1111% hlutur og var prentuð í upplagi af 150 eintökum sem eru fáanleg í Flakkaranum á Barðaströnd, Skrímslasetrinu og bensínstöð Orkunnar á Bíldudal. Við opnunina var farið í göngu út í Bakkadal í Arnarfirði en bókin fjallar um fjölskyldulandið hennar þar.

Verk fyrir staðbundna nagla. Mynd: Aðsend.
Hildigunnur, Gunndís og Þorgerður. Mynd: Aðsend.

Verk Þorgerðar á hátíðinni eru útilistaverk sem er steypt brons í hlíðinni við prestssetrið á Brjánslæk sem nefnist Jökulöldur. Svo er verk sem ber nafnið Steingervingar og surtarbrandur en eftir göngu í Surtarbrandsgil fá allir myndskreytt vottorð um að þeir hafi þreytt gönguna. Einnig er verk eftir hana sem nefnist 80% af því sem það er, sem er þrívíddarprent af surtarbrandi frá Surtarbrandsgili.
.
Hildigunnur vann verk með leikskólabörnum í Vesturbyggð eins og kom fram fyrr í sumar hér á BB.is Svo er hún með verk sem nefnist 10 verk fyrir staðbundna nagla í Flakkaranum á Brjánslæk. Verkið samanstendur af 50 blaðsíðna teikniblokk sem gestir gátu fengið afrifu af og tekið með sér. Einnig er hún með verk sem heitir Límmiðar sem samanstendur af nokkrum gerðum af límmiðum sem voru settir hingað og þangað í glugga á sunnanverðum Vestfjörðum, meðal annars í bensínstöð Orkunnar á Bíldudal.

Hátíðin þótti takast vel til og var fín mæting á opnunina sem og á sýningarstaðina og er óhætt að hrósa aðstandendum þessar skemmtilegu hátíðar fyrir glæsilegt framtak.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA