Sandkastalakeppnin sívinsæla á laugardaginn

Yfirleitt eru nokkrir þátttakendur um hvern kastala og er gaman að sjá afsprengi dagsins þegar hugmyndaflugið fær lausan tauminn. Mynd: Fjölnir Ásbjörnsson.

Næstkomandi laugardag, þann 4. ágúst, verður hin árlega sandkastalakeppni í Holti í Önundarfirði. Séra Fjölnir Ásbjörnsson sagði blaðamanni BB að keppnin eigi sér langa sögu og sé afar skemmtilegur viðburður. „Þetta er ansi fjölsótt en það eru mörg hundruð manns sem koma hingað árlega, bæði til að taka þátt og líka til að fylgjast með. Á síðasta ári voru 90 kastalar sem kepptu og það voru alltaf nokkrir um hvern. Við gefum verðlaun fyrir 1., 2. og 3. sæti og líka Gumbaverðlaun fyrir frumlegasta kastalann, sem er tilvísun í Gumba á Flateyri sem var einn af upphafsmönnum keppninnar á sínum tíma. Verðlaunagripirnir eru veglegir og það er Landsbankinn sem er styrktaraðili okkar og þeir gefa þessa gripi. Svo er þriggja manna dómnefnd þar sem meðlimir koma úr hönnunar og listageiranum.“ segir Fjölnir.

Að sögn Fjölnis þá lítur veðurspáin fyrir helgina bara ágætlega út. „Við erum búin að vera að fylgjast með spánni og það lítur út fyrir að laugardagurinn verði betri en dagarnir í kring, eiginlega bara þurr! Svo getur fólk komið og sólað sig og synt í sjónum og haft það gott. Þetta er grasrótarstarfsemi og er allt unnið í sjálfboðavinnu ánægjunnar vegna. Þetta byrjaði smátt og átti að gera eitthvað skemmtilegt fyrir krakkana. En þetta hefur áunnið sér svolítinn sess og er orðinn fjölmennur viðburður. Það er ótrúlegt hvað fólk getur búið til þegar það gefur hugmyndafluginu lausan tauminn.“ segir Fjölnir að lokum.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA