Gönguleikur Heilsubæjarins Bolungarvíkur 2018

Rauðu línurnar á myndinni eru tengdar fjallgönguleiknum en þær bláu tengdar fjölskylduleiknum.

Samtökin Heilsubærinn Bolungarvík hafa útbúið tvo gönguleiki fyrir sumarið og haustið 2018. Annarsvegar er það fjallgönguleikurinn og hinsvegar fjölskylduleikurinn. Í fjallgönguleiknum eru lengri göngur þar sem ganga á upp í skörð eða upp á fjallstoppa en fjölskylduleikurinn er miðaður við fjölskyldur eins og nafnið ber með sér. Þar eru auðveldari leiðir sem öll fjölskyldan getur gengið saman.

Leikurinn gengur út á það að safna stimplum á sem flestum stöðvum. Í fjallgönguleiknum eru 13 stöðvar en í fjölskylduleiknum eru 5 stöðvar. Til að geta skilað inn þátttökuseðlinum og komist í vinningspottinn, þarf að safna 4 af 5 stimplum í fjölskylduleiknum en 7 af 13 í fjallgönguleiknum. Stimpilkortin hafa verið borin út í öll hús í Bolungarvík en hægt er að nálgast fleiri stimpilkort í Víkurskálanum og í Musteri vatns og vellíðunar.

Stimplarnir eru staðsettir inni í vörðum á áfangastað, í mjög áberandi gulum vatnsheldum pokum. Heilsubærinn er að vinna í því að merkja allar leiðirnar inn í gönguleiðaappið Wikiloc og núna geta allir sem vilja gengið eftir þeim leiðum sem hafa verið merktar þar inn.

Þegar stimplunum hefur verið safnað í stimpilkortin þá má skila þeim bæði í Musterinu eða í Víkurskálanum. Hver sá sem hefur fyllt rétt út í stimpilkortið, hvort sem um er að ræða fjallgönguleikinn eða fjölskylduleikinn, fær eina fría ferð í Musteri vatns og vellíðunar og einn frían ís í Víkurskálanum í Bolungarvík, sem verðlaun fyrir afrekið. Þegar stimpilkortinu hefur verið skilað á annan hvorn þessara staða þá kemst viðkomandi í verðlaunapottinn. Dregið verður úr pottinum í Ástarvikunni um miðjan september. Verðlaunin munu koma að öllu leyti frá Bolungarvík og vera tilgreind sérstaklega í Ástarvikunni.

Þátttakendur eru einnig minntir á að taka myndir úr gönguferðum sínum því veitt verða verðlaun fyrir bestu myndina úr hvorum gönguleiknum fyrir sig. Það sem þarf að gera er að deila myndunum á samfélagsmiðlunum Facebook eða Instagram og merkja myndirnar með myllumerkjunum #Heilsubærinn og svo #Fjallgönguleikurinn eða #Fjölskylduleikurinn eftir því sem við á. Verðlaunin fyrir bestu myndina munu einnig koma alfarið frá Bolungarvík og vera tilgreind sérstaklega í Ástarvikunni í september.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA