Gönguferðir með Gísla Súrssyni um helgina

Elfar Logi við leiðsögn á slóðum Gísla Súrssonar. Mynd: Aðsend.

Það er aldrei dauð stund hjá Elfari Loga og Marsibil á Gíslastöðum í Haukadal Dýrafirði. Um Verslunarmannahelgina verður annars vegar velt vöngum um búskaparhætti Gísla Súrssonar og hinsvegar verður boðið upp á gönguferð á slóðir Gísla Súrssonar.

Gönguferðin verður farin laugardaginn 4. ágúst næskomandi. Þetta verður söguleg gönguferð á slóðir Gísla sögu Súrssonar í Haukadal Dýrafirði. Allir göngugarpar fá víkingaskikkju til að klæðast meðan á ferðinni stendur og geta þannig sett sig enn betur í spor sögunnar. Að göngu lokinni verður boðið uppá víkingarabarbaragraut Gíslastaða. Það er margt að sjá á Gíslastöðum og geta gestir meðal annars spreytt sig á refilsaumi er byggður er á Gísla sögu Súrssonar og setti þannig sitt spor í söguna. Gangan hefst klukkan 11:00 og verður leiðsögumaður Elfar Logi Hannesson. Hægt er að bóka í gönguna í síma 891-7025 eða á komedia@komedia.is

Á sunnudeginum mun svo hinn landskunni búfræðingur og Kirkjubólspiltur Bjarni Guðmundsson ausa úr söguaski sínum. Kappinn hefur stúderað margan búskapinn og síðustu misseri búskaparhætti Gísla Súrssonar. Það er næsta víst að þetta verður sögulegt og ekkert farið með fleipur enda nam Bjarni við barnaskólann í Haukadal. Verslun Gíslastaða verður galopin og frítt kaffi í boði.

Það er því um að gera að gera sér ferð í Haukadalinn næstu helgi, það verður enginn svikinn af ferð á þær slóðir og þeim félagsskap sem í boði er þar.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA