Önundarfjörður er fjársjóður fyrir ljósmyndara

Ljósmyndabókin hans Eyþórs er lítil og nett og hentar jafnt ferðafólki sem heimamönnum.

Ný ljósmyndabók um Flateyri og Önundafjörð kom út 3. júlí. Bókin inniheldur rúmlega 60 nýlegar ljósmyndir af svæðinu og sýna öll litbrigði árstíðanna í firðinum. Allar myndirnar eru eftir Eyþór Jóvinsson sem er fæddur og uppalinn á Flateyri. Þetta er fjórða bók Eyþórs, en hans þriðja ljósmyndabók.

„Ég hef verið að mynda Flateyri og Önundarfjörð frá því að ég man eftir mér, enda einstaklega fallegur og fjölbreyttur fjörður,“ segir Eyþór í samtali við BB og bætir við: „Náttúran hér er algjör fjársjóður fyrir alla ljósmyndara. Það var þó ekki fyrr en fyrir rúmlega ári síðan sem ég fór markvisst að ljósmynda fjörðinn með það fyrir augum að gefa út bók. Hugmyndin með útgáfunni er að gefa út litla, netta og ódýra ljósmyndabók sem hentar ferðafólkinu sem sækir fjörðinn heim, og gera ljósmyndabók fyrir Önfirðinga, bæði búsetta hér sem og brottflutta.“

Til að byrja með fæst ljósmyndabókin aðeins í Gömlu Bókabúðinni á Flateyri sem Eyþór rekur, en bókin er væntanleg í sölu víðar um svæðið á næstu dögum.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA