Önfirðingur gerði íslensk/úkraínska heimildamynd

Stilla úr myndinni.

Heimildamyndin „Mirgorod, í leit að vatnssopa“ eftir Einar Þór Gunnlaugsson frá Hvilft í Önundarfirði, fór í sýningarferðalag um mið Úkraínu á dögunum. Myndin sem er íslensk/úkraínsk framleiðsla segir frá ferðalagi kvikmyndagerðarmanna um borgina Mirgorod og nærsveitir. Svæðið er einna þekktast fyrir að vera heimaslóðir skáldsins Nicolai Gogols. Myndin var sýnd í borgunum Dniepr, Poltava og Mirgorod en einnig í sumarbúðum háskólastúdenta í innsveitum Poltavahéraðs, eða svokallaðs „StudentRepulik“. Sýnt var í menningarmiðstöðinni í Dniepr, í Poltava bauð Gogol leikhús borgarinnar leikhúsi undir sýningu, og í Mirgorod var sérstök viðhafnarsýning í ráðhúsinu þar sem aðstandendur myndarinnar voru leystir út með blómum og gjöfum.
Mikið var fjallað um viðburðinn í fjölmiðlum héraðsins þar sem sjaldséðar eru heimildarmyndir um svæðið, eða Úkraínu. Myndir sem fjalla ekki eingöngu um stríðið við Rússa eru líka sjaldséðar. Að loknum sýningum voru að jafnaði fjörugar og beittar umræður um hvernig menningarafurðir segja sögur af framandi slóðum með ólíkum hætti og tengir bæði fólk og fjarlæg menningarsvæði og dregur fram það sem fólk á sameiginlegt þrátt fyrir ólíkan bakgrunn og menningu. Hér má sjá Facebooksíðu fyrir myndina og hér má sjá stiklu úr henni.

Myndin er einstök að því leiti að íslensk-úkraínsk heimildarmynd er nú framleidd og sýnd í fyrsta sinn hér á landi, en myndin skyggnist einnig inn í daglegt líf í landi sem fær að mestu umfjöllun vegna stríðs og pólitískra átaka.

Myndin hefur verið í framleiðslu síðastliðin tvö ár með hléum en hún hlaut undirbúningsstyrk frá Utanríkissráðuneytinu og fékk þróunarstyrk Kvikmyndamiðstöðvar Íslands fyrr á þessu ári. Gert er ráð fyrir að boðið verði upp á sýningu á Ísafirði þar sem leikstjórinn verður búsettur að mestu í vetur.

Einar Þór Gunnlaugsson segir að tilgangur ferðarinnar til Úkraínu hafi ekki verið að gera mynd heldur slaka á. „Ekki það, að maður slaki ekki á við að gera mynd en þetta var ferð til heilsubóta. Þarna kynntist ég hins vegar nýjum og hversdagslegum hliðum á landi sem mikið er kennt við stríð þessi árin. Þeirri reynslu vildi ég deila með öðrum og sýna þá hlið sem er falin almannasjónum á Vesturlöndum en líka það, að persónulega þá liggur áhugi minn á hinu hversdaglega. Inn á átakasvæðin vildi ég ekki.“
„Mér og félaga mínum Oleg Mingalev bauðst snemma aðstoð borgarstjórnar Mirgorod við að koma myndinni af stað og sinna upptökum í héraðinu, en þetta er þannig verkefni að mestu, það “gerðist” með góðri hjálp.“

„En stíllinn, átti hann að vera “observational”, að opinbera falinn hlut, að vera fluga á vegg eða virkur þátttakandi. Fyrr en varir hurfu þó vangaveltur af þessu toga, um form, frásagnartækni, tón eða stíl heimildarmyndarinnar. Vegna þess að ég var kominn á rúntinn, og að fara á rúntinn er dálítið einsog að fara í bíó, maður ferðast, getur séð ólíka hluti eftir því hvaða glugga maður horfir út eða lítur á hlutina, það er alltaf eitthvað að sjá og skynja þótt umhverfi faratækis okkar hafi enga sérstaka frásagnartækni, eða stíl. Og það er jafnvel í lagi að dotta aðeins í aftursætinu, maður vaknar og það er enn ferðalag í gangi. Og þá er ekki þörf á að skilgreina allt, hvorki stílinn útum gluggann frekar en sætið sem maður situr í.“

“Vegamynd” er eina hugtakið sem ég þori að fullyrða að megi spyrða við tón þessarar myndar, þær fjalla oft um uppgötvanir, ytra eða hið innra. Og þema verksins, ekki stríð heldur vatn. Mig langar að vita hvað er í vatninu í mið Úkraínu. Frasinn, “hvað er eiginlega í vatninu þarna …” var í minni sveit óbein spurning um hvort einhver á tilteknum slóðum væri annað hvort galinn eða snillingur. En það get ég fullyrt, að allavega einn snillingur kemur frá Mirgorod og um hann hafa Rússar og Úkraínumenn slegist, þótt stríðið í dag snúist um allt annað.“

Það verður án efa fróðlegt að sjá mynd Einars Þórs þegar hún kemur í bíó á Ísafirði og kynnast þessum menningarheimi sem flestum á Vestfjörðum er ókunnur.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA