Hestamannamót á Þingeyri um helgina.

Yfir 30 manns munu taka þátt í hestamannamóti sem haldið verður á Þingeyri um helgina. Undirbúningur fyrir mótið hefur staðið lengi og hefur meðal annars annars verið reiðnámskeið síðustu daga þar sem lögð hefur verið áhersla að kenna börnum sem og eldra fólki. Margrét Jómundsdóttir, ritari hestamannafélagsins Storms sagði blaðamanni BB að mótin séu yfirleitt vel sótt og keppt sé í ýmsum flokkum. „Það verður töltkeppni hér í höllinni föstudaginn 20. júlí og svo verður keppt í fljúgandi skeiði og einnig liðakeppni þar sem verða þrír í hverju liði. Svo er laugardagurinn aðal keppnisdagurinn og keppt þá í A og B flokki auk barna og unglingaflokki.“ segir Margrét.

Að sögn Margrétar myndast yfirleitt mjög góð stemning á þessum mótum, það er grillað saman og boðið upp á tónlistaratriði, en að þessu sinni kemur trúbador frá Bíldudal til að skemmta fólki. Einnig verður boðið upp á happdrætti en sérlega veglegir vinningar verða á boðstólnum þetta árið og segir Margrét að fólk og fyrirtæki hafi verið einstaklega örlátt þetta árið. Hún býst við miklu fjöri og segir að þetta sé einn af hápunktum sumarstarfseminnar en að erfiðara sé að virkja fólk í hestamennskunni á veturna. „Það erfiðasta í þessari starfsemi er að virkja þetta yfir vetrartímann. En við höfum þó haldið námskeið að vetri til og það var rosalega vel mætt á það. Við náðum þannig að kveikja áhuga hjá börnunum með hjálp Wouters hér í Simbahöllinni á Þingeyri. Hann er svo liðlegur að lána hesta og það er gott fyrir þá sem hafa lengi langað að prófa og þetta skilar sér, við sjáum sum af þeim börnum áfram hjá okkur.“ segir Margrét að lokum.

Aron Ingi
aron@bb.is