Til hamingju með daginn sjómenn

Í sjávarplássum á Vestfjörðum hefur sjómannadagurinn skipað mikilvægan sess meðal íbúa. Þó verulega hafi dregið úr almennum áhuga á sjómannadeginum á Ísafirði, hefur meira verið lagt upp úr deginum í þorpunum í kring og mikið lagt upp úr sjómannadegi í Vesturbyggð og Bolungarvík. Allir sjómenn Vestfjarða eru í landi á þessum degi og geta því tekið þátt í hátíðarhöldum helgarinnar.

Sjómannadagurinn á Patreksfirði hefur verið haldin hátíðlegur frá árinu 1941 og stendur hátíðin í fjóra daga, byrjar á fimmtudegi og endar á sunnudegi. Mikið er lagt upp úr skemmtun og að nóg sé um að vera fyrir börn og fjölskyldufólk. Sjómannadagurinn í Bolungarvík, á sér langa og merka sögu og er einn af stóru menningarviðburðunum í bænum ár hvert enda er Bolungarvík ein elsta verstöð landsins. Um sannkallaða hátíð er að ræða og hefjast hátíðarhöldin fimmtudaginn 31. maí með líflegri dagskrá út sunnudaginn 3. júní.

Mikilvægi sjómannadags á Vestfjörðum er skiljanlegt ef litið er til mikilvægis sjávarútvegs í fjórðungnum, en hann er um helmingur af vestfirsku hagkerfi og meira ef afleiddar greinar eru meðtaldar. Það er auðvitað tímanna tákn á Ísafirði þar sem meiri þjónusta hefur byggst upp og vægi sjávarútvegs hefur minnkað, að dregið hefur úr áhuga á þessum hátíðsdegi sjómanna. Skrifari minnist sjómannadagsins á Ísafirði á velmektarárum hátíðarinnar og bæjarbúar flykktust niður á höfn til að fylgjast með keppni sjómanna í ýmsum greinum. Keppni í róðri var mikil milli áhafna skipa og eins var keppt í reiptogi og ungir hraustir menn voru að kúskast á staur sem slútti yfir ísköldum sjónum. Síðan fór hersingin upp á Torfnes þar sem fylgst var með keppni í fótbolta. Um kvöldið var haldin dansleikur þar sem dansinn dunaði fram á nótt. Það þótti heiðursess að skipa sjómannadagsráð og minnist skrifari þess þegar Kristján heitinn lóðs var formaður og rak þetta af mikilli prýði.

En meðan Ísfirðingar hafa tapað rótum sínum aðeins, eru þessar taugar sterkar í nágrannabænum Bolungarvík. Fyrir þá sem sakna fjörsins um sjómannadag er því rétt að bregða sér bæjarleið og heimsækja góðan nágranna. Allir ættu að geta fundið sér eitthvað við hæfi í fjölbreyttri dagskrá hátíðarinnar. Þó ekki væri til annars en að sýna sjómönnum virðingu og taka þátt í hátíðarhöldum þeirra.

Til hamingju með daginn sjómenn.

Gunnar Þórðarson

DEILA