Starfskynningar Grunnskólans á Ísafirði

Einar Geir Jónasson, Elías Ver Bjarnason og Phakhawat "Bo" Janthawong

Nú fer að líða að útskrift hjá 10. bekkingum úr Grunnskólanum á Ísafirði. Krakkarnir hafa upplifað margt spennandi m.a. útskriftarferðalagið, sem var núna í lok maí. Þá fóru þau í Skagafjörð og upplifðu margt ógleymanlegt t.d. flúðasiglingu, klettaklifur, paintball/litabolta svo fátt eitt sé nefnt.

Þegar líða tekur að útskrift fara krakkarnir að undirbúa sig að fara út í lífið. Að því tilefni er boðið upp á starfskynningar síðustu dagana í skólanum, þar sem m.a. var boðið upp á að fara á lögreglustöðina, sjúkrahúsið, BB útgáfufélagið og margt fleira. Þrír strákar, Phakhawat Janthawong, Elías Ver Bjarnason og Einar Geir Jónasson völdu að heimsækja BB og fræðast um starfsemina þar.

Í starfskynningunni fengu þeir að sjá og heyra hvernig frétta er aflað og hvernig fréttirnar eru settar inn á vefinn. Einnig fengu þeir tilsögn við að skrifa og birta frétt, nánar til tekið þessa frétt.

Starfskynningin skiptist í 3 daga og hver nemandi velur tvo staði til að kynna sér, þriðji dagurinn er svo frídagur.

Einn nemendanna, sem heimsótti BB, Phakhawat Janthawong sagði: „Þetta var rosalega fræðandi, ég hélt að þetta væri létt vinna, en það kom á óvart hvað þetta er mikil vinna.“.

Einar Geir Jónasson, Elías Ver Bjarnason og Phakhawat „Bo“ Janthawong

DEILA