Oddur Pétursson – Minning

Oddur Pétursson frá Grænagarði er fallinn frá. Oddur var bæjarverkstjóri Ísafjarðarkaupstaðar frá árinu 1956 og þannig lykilstarfsmaður bæjarins í fjöldamörg ár. Oddur var einnig ólympíufari í skíðagöngu og keppti 20 ára gamall, ásamt Gunnari bróður sínum, á vetrarólympíuleikunum í Osló árið 1952.

Árið 1984 tók Oddur til starfa hjá Tæknideild Ísafjarðar og var þá falið að skrá snjóflóð, fylgjast með snjóalögum og gera úrkomumælingar. Það ár féllu snjóflóð sem skemmdu hús í Holtahverfi á Ísafirði og í desember 1983 hafði flóð úr Bakkahyrnu í Hnífsdal valdið tjóni á húsum. Starfið var þá lítið mótað og reynslan af slíku snjóeftirliti ekki mikil.

Fyrir samfélög á norðanverðum Vestfjörðum gegnir snjóathugunarmaður mikilvægu hlutverki við að gæta að öryggi íbúanna. Starf snjóathugunarmanna gat verið vandasamt og ákvarðanir oft erfiðar. Það var afrek hjá Oddi að hafa tekið við starfinu, ómótuðu og þróað það við þær samfélagslegu aðstæður sem ríktu fyrir 1995, þegar almennt var tekið lítið tillit til snjóflóðahættu.

Oddur var frumkvöðull hvað varðar tækni og skipulag snjóathugana hér á landi. Hann var einn helsti sérfræðingur okkar um snjóflóð og gegndi lykilhlutverki í uppbyggingu snjóathugunarmannakerfis landsins. Oddur sótti sér þekkingu til Bandaríkjanna og Kanada árið 1991 og þurfti m.a. að ganga í kanadíska herinn, með tilheyrandi pappírsvinnu, til að geta tekið þátt í sprengingum með herflokki sem notaði fallbyssu til að skjóta niður snjóflóð eftir þörfum.

Oddur starfaði við snjómælingar og athuganir fyrir Veðurstofu Íslands frá árinu 1996 til ársins 2013 og sinnti þá eftirliti og skráningu fyrir Ísafjarðarbæ og Súðavík. Hann var án nokkurs efa reyndasti snjóathugunarmaður landsins.

Bestu þakkir hafi Oddur Pétursson fyrir störf sín í þágu Ísafjarðarbæjar.

Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri.

 

 

DEILA