Ingibjörg fyrrum sveitarstjóri í Reykhólahrepp þakkar fyrir sig

Ingibjörg B. Erlingsdóttir. Mynd: Reykhólavefurinn.

Ingibjörg B. Erlingsdóttir tók þá ákvörðun að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi starfa sem sveitarstjóri Reykhólahrepps. Þakkarbréf frá henni hefur verið birt á vef Reykhóla og má lesa hérna:

Það var fyrir tæpum 8 árum að Sveinn Ragnarsson á Svarfhóli, þá nýkjörinn sveitarstjórnarmaður hringdi í mig, eina af umsækjendum um starf sveitarstjóra Reykhólahrepps, og tjáði mér að ég yrði ráðin ef ég vildi starfið. Það var stór dagur í mínu lífi, ég man ennþá hvar ég stóð í húsinu mínu í Hvalfjarðarsveit og U-beygjan var tekin í lífinu. Síðan þá hefur tíminn liðið sem á ógnarhraða og allt í einu eru ungu börnin sem ég kom með með mér orðin að ungu fólki og gráu hárin löngu búin að taka yfirhöndina.

Ég hef öðlast lífsreynslu sem ég hefði ekki viljað missa af og verður ekki frá mér tekin. En fyrst og fremst kynntist ég fólkinu í Reykhólasveit, sem ég ber mjög mikla virðingu fyrir. Duglegt og sjálfstætt fólk sem skapar sinn eigin grundvöll til þess að geta byggt landið okkar.

Og margt hefur gerst á þessum átta árum. Og þegar ég fer yfir það, þá er það eiginlega alveg ótrúlega mikið sem hefur verið áorkað, og hafa sveitarstjórnarmenn og samstarfsfólk mitt verið opið fyrir því að koma sem flestum verkefnum í framkvæmd og hafa hag sveitarfélagsins að leiðarljósi. Ég þakka það, því það er alls ekki sjálfsagt. Hér hafa allir unnið sem einn og við búum við það, að hjá okkur starfar opið og fúst starfsfólk, sem vill og hefur metnað til að gera betur í dag, en í gær og þykir óendanlega vænt um sveitarfélagið sitt. Og má fólk vera stolt af sveitarfélaginu okkar.

Ég vil þakka öllum íbúum Reykhólahrepps fyrir góða viðmótið sem þið hafið sýnt mér í gegnum árin. Einnig þakka ég öllu samstarfsfólki nær og fjær frábært samstarf og viðkynningu í gegnum árin. Ég er ekki alveg hætt störfum, ég mun starfa eitthvað fram eftir sumri. -Ingibjörg B Erlingsdóttir.“

Í kvöld klukkan 20 verður kynning á skýrsla Norsku verkfræðistofunnar Multicosult um leiðir fyrir Vestfjarðaveg (60). Kynningin fer fram í matsal Reykhólaskóla.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA