Gefur út úrval úr Geisla

Bókin Geisli hefur að geyma úrval úr hinu Bílddælska blaði Geisla, er kom út árin 1946-1960 í ritstjórn Jóns Kr. Ísfeld. Mynd: Elfar Logi Hannesson.

Ný Bíldudalsbók hefur verið gefin út og heitir hún Geisli. Þetta er úrval úr hinu bíldd-ælska blaði Geisla er kom út árin 1946-1960 í ritstjórn Jóns Kr. Ísfeld. Það er Elfar Logi Hannesson sem kemur að útgáfu bókarinnar. Útgáfuteiti var haldið á Bíldudal á dögunum og annað slíkt verður í Tjarnarbíó í Reykjavík fimmtudaginn 21. júní.

Elfar Logi segir í samtali við blaðamann BB að á Bíldudal hafi verið gefin út ýmiskonar blöð frá síðustu aldamótum. Um miðja síðustu öld hafi svo öflugur, hörkuduglegur og líklega ofvirkur prestur, sem var mikill maður fólksins, byrjað að gefa út blað. Þetta var árið 1946 og blaðið nefndi hann Geisla. „Þetta var svona sunnudagsskóla-blað, safnaðarblað, og var í fyrstu með kristilegu efni. Til að byrja með var þetta ekki fjölritað heldur lesið upp í sunnudagsskólanum. En síðan var þetta farið að vera að-sent efni, smásögur og ljóð en svo fljótlega fór hann að birta fréttir úr þorpinu og Arnarfirði og þar var allt mögulegt. Ef fólk var að mála þakið sitt, að gifta sig eða ef einhver átti afmæli þá skrifaði hann um það. Það var talað um eiginlega allt nema skilnaði og einhver leiðindi. Fréttirnar voru öðruvísi en gengur og gerist og samgöngumálin voru tekin fyrir og voru fyrirferðamikil eins og í dag. Þessi útgáfa gekk á árunum 1946-1960 eða þangað til presturinn flytur.“

Elfar Logi segist hafa haft þetta á æskuheimilinu. Hann byrjaði að skoða þetta áður en hann kunni að lesa og hefur haft blaðið fyrir augunum allar götur síðan. Hann fékk leyfi frá syni prestsins til að velja úrval úr Geisla og gefa það út í einni bók. Ákveðið var að sleppa öllu kristilegu efni þó það væri gott og blessað en Elfari fannst tilvalið að einbeita sér að lífinu í þorpinu og sögum af því. Hann segir að presturinn hafi greinilega verið með skemmtilegt og fréttnæmt nef og það hafi hreinlega allt sem gerðist orðið að fréttaefni hjá honum.

„Nú er þetta sem sagt komið út í einni bók og í lok hennar eru myndir úr safni rit-stjórans frá Bíldudal á þessu tímabili. Fólk getur því kynnt sér sögu Bíldudals á fróð-legan og hressandi máta. Ég er staddur í höfuðborginni núna, það var útgáfuteiti um daginn á Bíldudal og er annað þann 21. júní í Tjarnarbíói í Reykjavík. Þar les ég uppúr bókinni og fólk getur keypt ritið á Bíldudalsprís.“ segir Elfar Logi að lokum.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA